Leiðtogar frumbyggja í Ástrala hafa kallað eftir vikulangri þögn og íhugun í kjölfar þess að breytingu á stjórnarskrá sem hefði viðurkennt rétt frumbyggja til að hafa áhrif á þingi var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Alls greiddu fleiri en 60 prósent gegn tillögunni. Í henni var lagt til að sett yrði á stofn sérstök nefnd frumbyggja á þingi sem myndi ráðleggja þingmönnum um öll málefni sem snerta frumbyggja. Til að hún hefði verið samþykkt hefði þurft meirihluta á landsvísu og í það minnsta fjórum af sex fylkjum ríkisins. Tillögunni var hafnað í öllum sex.
„Þetta er beisk kaldhæðni,“ sagði í tilkynningu frá leiðtogum frumbyggja eftir að niðurstaða kosninganna lá fyrir og héldu svo áfram: „ Að fólkið sem hefur verið hér í þessari heimsálfu í 235 ár vilji ekki viðurkenna þau sem hafa átt heimili sitt hér í meira en 60 þúsund ár er óskiljanlegt.“
Þá kom fram í tilkynningunni að fána frumbyggja yrði flaggað yrði í hálfa stöng alla vikuna.
Á vef Reuters segir að niðurstaðan sé bakslag í réttindabaráttu frumbyggja í Ástralíu og geti haft áhrif á það hvernig fólk um allan heim telur Ástralíu koma fram við frumbyggjaþjóðir. Ólíkt Kanada og Nýja-Sjálandi hefur þeim ekki tekist að ná neins konar samkomulagi eða viðurkennt þau formlega.
Frumbyggjar eru um 3,8 prósent þjóðarinnar en alls búa um 26 milljónir í Ástralíu. Þau hafa búið þar í um 60 þúsund ár en eru ekki nefnd í stjórnarskránni og eru sá hópur fólks sem hallar hvað mest á samfélagslega.
Forsætisráðherra landsins, Anthony Albanese, hafði í aðdraganda kosninganna sagt tillöguna geta sameinað Ástrala, en án árangurs. Leiðtogi stærsta stjórnarandstöðuflokksins, Peter Dutton, hafði á sama tíma verið mótfallinn tillögunni.