Körfubolti

Kipptu fingrinum í lið í miðjum leik

Smári Jökull Jónsson skrifar
Everage Richardsson í leik með Blikum á síðustu leiktíð.
Everage Richardsson í leik með Blikum á síðustu leiktíð. Vísir/Bára

Everage Richardsson var besti maður Breiðabliks sem tapaði fyrir Hetti í Subway-deildinni á fimmtudag. Everage hélt áfram að spila þrátt fyrir að hafa farið úr lið á fingri.

Höttur vann sinn annan leik í Subway-deildinni á tímabilinu þegar liðið lagði Breiðablik á heimavelli sínum á fimmtudagskvöldið. Hinn síungi Everage Richardsson var besti maður Blika í leiknum en hann skoraði 22 stig og tók 11 fráköst í 80-73 sigri Hattarmanna.

Richardsson varð fyrir því óláni í leiknum að fara úr lið á fingri. Einhverjir hefðu eflaust kastað inn hvíta handklæðinu í kjölfarið en Richardsson var ekki á þeim buxunum.

Hann fékk einfaldlega aðstoð frá sjúkraþjálfara Hattar við að kippa fingrinum aftur í lið og hélt síðan leik áfram. Töluverðan tíma tók að koma fingrinum aftur í lið og kom Viðar Hafsteinsson, þjálfari Hattar, meðal annars til aðstoðar.

„Algjört vesen að koma honum í liðinn,“ sagði Helgi Már Magnússon sérfræðingur í Subway Körfuboltakvöldi en atvikið var rætt í síðasta þætti.

„Það er ekki eins og þetta hafi tekist í fyrstu tilraun, hvað er þetta tólfta tilraunin. Engin svipbrigði á honum,“ bætti Ómar Örn Sævarsson við.

Myndband af atvikinu má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Subway Körfuboltakvöld - Fingri Richardsson kippt í lið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×