Þetta segir Sigríður Jónsdóttir, hvers foreldrar eru bændur á Efra-Apavatni í Bláskógabyggð, í samtali við fréttastofu en hún birti færslu á Facebook í gær þar sem hún auglýsti eftir aðstoð nærsveitunga við að leita að fé í dag.
Fyrir viku síðan komu hún og fleiri að þar sem þrír hundar af nærliggjandi bæ voru að atast í fénu og þegar betur var að gáð fannst bæði dautt fé og illa sært.

„Þeir voru eiginlega búnir að éta það lifandi,“ sagði Sigríður um aðkomuna að fénu, sem sumt þurfti að aflífa.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem Sigríður kom að dauðu fé í haust og sumar en þá gat hún ekki verið viss um hvað hafði gerst. Hún segir hins vegar hafa verið farin að undrast um hegðun fjárins.
„Þær eru bara hræddar,“ segir hún.

Nú þykir henni ljóst að sökin liggi hjá hundunum frá nágrannabænum, eftir að hafa komið að þeim í síðustu viku.
Sigríður segist ekki vilja tjá sig mikið um málið í bili og þá segir hún erfitt að henda reiður á fjölda dauðra dýra og særðra fyrr en eftir leitina í dag.
„Þetta er alveg ómetanlegt,“ segir hún um aðstoðina sem hefur borist en þegar fréttastofa náði tali af henni var hún á leið milli staða. Leitað verður á tveimur jafnfljótum, á hestum, fjórhjólum og úr lofti, með aðstoð dróna.
Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu og Matvælastofnunar.