Þetta staðfestir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Hann kveðst ekki geta farið nánar út í sakarefnið.
Grímur segir að búið sé að yfirheyra starfsmanninn, sem hefur stöðu sakbornings, einu sinni. Ekki hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Þá segir hann að til standi að taka skýrslur af nokkrum börnum í Barnahúsi. Hann viti ekki nákvæma tölu á því hversu mörg börn málið snertir.
Gera sér grein fyrir áhyggjum foreldra
Í öðrum tölvupósti til foreldra barna í Laugarnesskóla frá Birni Gunnlaugssyni, skólastjóra Laugarnesskóla, segir að fyrri upplýsingapóstur frá skólanum og umfjöllun í fjölmiðlum hafi skiljanlega vakið mikil viðbrögð í skólasamfélaginu.
„Við í Laugarnesskóla gerum okkur grein fyrir áhyggjum ykkar og höfum fullan skilning á þeim. Ítrekað skal að málið er unnið í samstarfi við foreldra þeirra barna sem áttu í hlut og aðra sem að málinu koma.“
Málið sé til rannsóknar hjá þar til bærum aðilum og að svo stöddu hafi skólinn því miður ekki heimild til að upplýsa nánar um málsatvik.
„Tekið skal fram að umræddur starfsmaður er í leyfi meðan málið er rannsakað. Við vonumst til að geta veitt nánari upplýsingar þegar rannsókn er lokið.“
Uppfært klukkan 14:45. Upphaflega var haft eftir Grími að búið væri að taka skýrslur af börnum. Það hefur ekki enn verið gert en það stendur til.