Sagt var frá því í þættinum Hliðarlínunni sem sýndur var á Stöð 2 og Stöð 2 Sport í gærkvöldi að dæmi séu um að börn sem þjást af verkjum taki verkjalyf líkt og íbúfen og paratabs til að komast á íþróttaæfingar og til að keppa.
Ekki er kveðið á um nein aldurstakmörk við kaup á lyfjum hvorki í lyfjalögum né reglugerðum.
Fréttastofa sendi þrettán ára strák í tvö apótek til að kaupa verkjalyf og reyndist það lítið mál fyrir hann. Á öðrum staðnum fékk hann lyf afgreidd án athugasemda en á hinum var honum bent á að borða með íbúfeninu og taka ekki meira en þrjár töflur á dag.
„Við erum búin að senda inn athugasemdir og umsögn um þetta af því að okkur hefur verið bent á þetta. Þetta er ekki mikið að koma upp en apótekin eru að óska eftir því að þessar línur séu skýrðar,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar.
Rúna telur æskilegt að lyfjalögum verði breytt. Hún bendir á að það sé ákveðinn tvískinnungur í því að það standi á öllum lyfjapökkum varúð geymist þar sem börn ná ekki til og á sama tíma geti börn keypt lyf án athugasemda.
„Við viljum raunverulega að það sé sett einhver aldurstakmörkun. Við vitum bara ekki nákvæmlega við hvaða aldur á að miða og það er kannski eitthvað samtal sem þarf að taka.“
Hún segir hægt að horfa til nágrannalandanna í þessu samhengi.
„Danir eru með fimmtán ár. Við erum með í Heilsuveru við sextán ára aldur. Þannig ég myndi halda að þetta væri einhvers staðar þar.“
Hægt er að sjá brot úr Hliðarlínunni
í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn í heild er á Stöð 2+.