Körfubolti

Magnaður Elvar í sigri PAOK í Meistara­deildinni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar í leik með PAOK.
Elvar í leik með PAOK. Heimasíða PAOK

Elvar Friðriksson og félagar hans í gríska liðinu PAOK mættu Galatasaray frá Tyrklandi í Meistaradeildinni í dag. Elvar var frábær í dag og náði þrefaldri tvennu í leiknum.

Elvar gekk til liðs við PAOK í sumar en leikur liðanna er hluti af Meistaradeild FIBA. Um var að ræða fyrsta leik liðanna í keppninni en leikið var á heimavelli Galatasaray í Islanbul.

Elvar og félagar hans voru sterkara liðið frá upphafi í leiknum. Þeir leiddu 30-19 eftir fyrsta leikhlutann og í hálfleik munaði tíu stigum eftir að heimamenn í Galatasaray höfðu mest náð að minnka muninn í tvö stig. Staðan í hálfleik 52-42.

Gestirnir héldu frumkvæðinu og munurinn var yfir tíu stigunum áður en fjórði leikhlutinn hófst. Elvar var að spila frábærlega fyrir lið PAOK og fór fyrir sínu liði.

Heimamenn í Galatasaray voru að spila frekar illa og náði gríska liðið meðal annars nítján stiga forskoti í lokafjórðunginum. PAOK vann að lokum 88-77 sigur í þessum fyrsta leik liðsins í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Eins og áður segir var Elvar að spila afar vel fyrir PAOK. Lýsandi leiksins fór fögrum orðum um Njarðvíkinginn og sagði að hann gæti reynst kaup tímabilsins.

Elvar gerði sér lítið fyrir og endaði leikinn með þrefaldri tvennu. Hann skoraði 19 stig, tók 11 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Alvöru byrjun í Meistaradeildinni hjá Elvari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×