Körfubolti

Yfir 700 lög­reglu­menn fylgdu liði Mac­cabi Tel Aviv til leiks í Valencia

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lögregluþjónar við öllu búnir fyrir utan heimavöll Valencia.
Lögregluþjónar við öllu búnir fyrir utan heimavöll Valencia. Vísir/Getty

Lið Valencia tekur á móti Maccabi Tel Aviv í EuroLeague-deildinni í körfubolta í kvöld. Yfir 700 lögreglumenn fylgdu ísraelska liðinu til íþróttahallarinnar í Valencia.

Leikurinn í Valencia fer fram í skugga stríðsátakanna í Ísrael og á Gasasvæðinu og því ekki skrýtið að yfirvöld á Spáni vilji hafa vaðið fyrir neðan sig þegar kemur að leiknum.

Yfir 700 lögregluþjónar voru kallaðir til vinnu til að sjá til þess að lið Maccabi Tel Aviv kæmist örugglega xtil leiksins. Lögreglumennirnir voru flestir þungvopnaðir og fylgdu fjölmörg farartæki rútu Maccabiliðsins eftir. Þá flaug þyrla yfir svæðið þar að auki.

Í frétt spænska blaðsins Marca kemur fram að forráðamenn Maccabi Tel Aviv hafi flutt starfsemi liðsins til Nicosia á Kýpur á meðan stríðsátökin geysa. Liðið flaug með einkaflugi til Spánar í gær.

Martin Hermannsson er á mála hjá Valencia en er ekki í leikmannahópi liðsins í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×