Innlent

Grunaður um að brjóta á systur­dóttur og elta hana þegar hún komst undan

Jón Þór Stefánsson skrifar
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness, en myndin er úr dómsal dómstólsins.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness, en myndin er úr dómsal dómstólsins. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni og fíkniefnalagabrot. Það er héraðssaksóknari sem höfðar málið sem verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness.

Manninum er gefið að sök að hafa um nótt á þessu ári farið nakinn upp í rúm til systurdóttur sinnar, en fram kemur í ákæru að hún er undir lögaldri. Þar hafi hann lagst ofan á hana klipið í rass hennar innanklæða og spurt hana endurtekið hvort hún vildi ríða.

Atvikið sem málið varðar átti sér stað á heimili mannsins, en fram kemur að stúlkan hafi náð að koma sér undan og hlaupa á salerni. Hann er sagður hafa hlaupið á eftir henni og reynt að komast inn til hennar.

Foreldri stúlkunnar krefst þriggja milljóna króna í miskabætur fyrir hönd hennar.

Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa árið 2022 haft 23 kannabisplöntur á heimili sínu og rúmt kíló af marijúana. Honum er gefið að sök að hafa ræktað umræddar plöntur á heimili sínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×