Körfubolti

„Ég er ekki hrifinn af henni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karina Konstantinova í leik með Valsliðinu í vetur en í fyrra var hún hjá Keflavík.
Karina Konstantinova í leik með Valsliðinu í vetur en í fyrra var hún hjá Keflavík. Vísir/Vilhelm

Valskonan Karina Konstantinova var til umræðu í Körfuboltakvöldi kvenna í gær en sú búlgarska átti vissulega mikinn þátt í því að Valskonur sluppu með sigurinn frá heimsókn sinni til nýliða Stjörnunnar í Garðabæ.

Konstantinova var með 23 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar í leiknum. Hún var með 4 stig og 2 stoðsendingar á lokakafla leiksins þar sem Valsliðið breytti stöðunni úr 63-59 fyrir Stjörnuna í 76-71 fyrir Val með 17-8 lokaspretti.

Ingibjörg Jakobsdóttir, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi, hrósaði Karinu fyrir þennan leik en hefur áhyggjur af því hvað hún skilar litlu á móti bestu liðum deildarinnar.

„Hún á geggjaðan leik, þannig séð. Svo kemur leikur Vals á móti Keflavík og hún er ekki að skila neinu. Ég er ekki hrifinn af henni,“ sagði Ingibjörg Jakobsdóttir.

„Í stóru leikjunum í fyrra á móti topp fjórum liðunum, í bikarúrslitaleiknum og í úrslitakeppninni þá skaut hún illa. Þegar hún skýtur illa og á lélegan leik þá bitnar það svo mikið á liðinu,“ sagði Hörður Unnsteinsson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds.

Enginn inn í leiknum hjá Val

„Eins og í gær þá er enginn inn í leiknum. Svo stillir Stjarnan þannig upp að þær ætla að taka Lindsey (Pulliam, bandarískur leikmaður Vals) úr umferð og það eru allir ískaldir í Valsliðinu og með lítið sjálfstraust,“ sagði Hallveig Jónsdóttir, sérfræðingur í Körfuboltakvöldi.

„Dagga (Dagbjört Dögg Karlsdóttir) er að taka fjögur skot í öllum leiknum og Ásta (Júlía Grímsdóttir) þrjú. Það er ekkert vit í því,“ sagði Hallveig.

„Heldur þú að þessar stelpur séu sáttar,“ spurði Hörður.

Fílar ekki Valsliðið í þessum rytma

„Það er enginn sáttur svona. Ég er bara ekki hrifinn af þessum leikstíl og þar af leiðandi ekki hrifinn af henni Karinu. Ég fíla ekki Valsliðið í þessum rytma. Mér finnst þær ekki glaðar, það er ekki gaman hjá þeim. Ég næ ekki að tengja við þær. Það er ekkert að gerast,“ sagði Ingibjörg.

Valsliðið hefur verið í vandræðum með nýliða Þórs og Stjörnunnar í síðustu leikjum og tapaði þar á undan á móti Grindavík.

„Þetta eru svona bla sigrar. Þetta er ekki skemmtilegt,“ sagði Ingibjörg.

„Þetta eru sigrar þar sem þú þarft að segja: Sigur er sigur,“ sagði Hallveig.

Það má finna alla umræðuna um Karinu hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld: Umræða um Karinu Konstantinovu hjá Val



Fleiri fréttir

Sjá meira


×