Íslenski boltinn

Rúnar stað­festir við­ræður | Fram vill ráða sem allra fyrst

Valur Páll Eiríksson skrifar
Rúnar hefur fundað með Frömurum og er með sín mál til skoðunar.
Rúnar hefur fundað með Frömurum og er með sín mál til skoðunar. Vísir/Hulda Margrét

Rúnar Kristinsson átti fund með formanni knattspyrnudeildar Fram á þriðjudaginn var um möguleikann á að taka við þjálfun liðsins. Hann leitar nýs starfs eftir að hann og KR slitu samstarfi að nýliðnu tímabili loknu.

Agnar Þór Hilmarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, og Rúnar staðfesta við Vísi að þeir hafi átt fund um möguleikann á því að Rúnar taki við Fram á þriðjudaginn var.

Framarar hafa áhuga á að ráða Rúnar í þjálfarastöðu félagsins sem er laus eftir að Ragnar Sigurðsson stýrði liðinu tímabundið undir lok síðustu leiktíðar. Ragnar tók við stöðunni af Jóni Sveinssyni sem var sagt upp um mitt mót.

Rúnar kveðst vera að skoða sín mál og liggi nú undir feldi hvað framtíð sína varðar.

Tíðinda ætti að vænta á næstu dögum hvað þjálfaramálin hjá Fram varðar en Agnar Þór segir að Framarar vilji ganga frá þjálfaramálunum sem allra fyrst, helst sitthvoru megin við helgina.

Rúnar stýrði KR frá 2010 til 2014 og aftur frá 2017 þar til í ár. Þar á milli var hann þjálfari Lilleström í Noregi og Lokeren í Belgíu.

Hann vann Íslandsmeistaratitil með KR árin 2011, 2013 og 2019 og bikartitilinn 2011, 2012 og 2014. KR lenti í sjötta sæti Bestu deildarinnar með 37 stig, fjórum stigum á eftir Breiðabliki sem lenti í neðsta Evrópusætinu.

Fram hafnaði í 10. sæti, efsta örugga sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan ÍBV sem féll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×