„Á þriðjudaginn er kvennaverkfallið og við á Önnu Jónu erum búin að vera að vandræðast með að finna kalla til að sjá um að fylla í öll störf,“ segir Haraldur í tilkynningu. „Til að hjálpa til að þjóna góðum konum og kvám ætlum við að fá til okkar nokkra vanhæfa gestaþjóna.“
Meðal þeirra sem hafa boðað sig til þess að hjálpa til við að þjóna til borðs á þriðjudag eru Ari Eldjárn, Sigurður Guðmundsson, Unnsteinn Manuel, Sigtryggur Baldursson, Bragi Valdimar, Haraldur Þorleifsson Jón Ólafsson, Einar Örn, Gunnar Hansson, Jón Gnarr, Högni Egilsson.

„Þeir munu detta inn yfir daginn og reyna af miklum vanmætti að ganga í skörðin sem konurnar okkar fylla aðra daga.“
Þá segir í tilkynningu að einfaldaður brönsmatseðill verði í boði yfir daginn, þar með talið egg og beikon, heimabakað brauð og kjúklingur og vöfflur. Allar konur og kvár fái 21 prósent afslátt þann dag í samræmi við launamismun kynjanna.
Frétt uppfærð 23. október kl. 18:00:
Haraldur Þorleifsson hefur tilkynnt að hann hafi hætt við viðburðinn. Nánar má lesa um málið í frétt Vísis.