Enski boltinn

Segir að leikmenn sem geri sér upp höfuðmeiðsli séu að eyðileggja fótboltann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Að mati Jamies Carragher gerði Nicolo Zaniolo sér mat úr samstuði við Nayef Aguerd í leik Aston Villa og West Ham United.
Að mati Jamies Carragher gerði Nicolo Zaniolo sér mat úr samstuði við Nayef Aguerd í leik Aston Villa og West Ham United. getty/Nathan Stirk/

Jamie Carragher segir að leikmenn sem gera sér upp höfuðmeiðsli séu eitt helsta mein fótboltans.

Í leik Aston Villa og West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í gær sakaði Carragher Villa-manninn Nicolo Zaniolo um að gera sér upp höfuðmeiðsli. Atvikið átti sér stað í seinni hálfleik. Villa tapaði boltanum en dómarinn David Coote stöðvaði leikinn svo skyndisókn West Ham varð að engu.

Carragher segir að þetta sé orðið vandamál í fótboltanum í dag, að leikmenn geri sér upp höfuðmeiðsli til að leikurinn verði stöðvaður. Hann segir að ekki eigi að stöðva leikinn nema augljóst sé að viðkomandi leikmaður sé raunverulega meiddur.

„Ég er kominn með nóg af þessu. Leikmenn mjólka höfuðmeiðsli. Dómarinn veit það kannski ekki en þarna sá hann atvikið og veit að ekkert er að,“ sagði Carragher.

„Þetta er að eyðilegggja leikinn. Leikmenn leggjast í jörðina þegar þeir tapa boltanum á hættulegum stað. Það var ekkert að þessu. Þetta er kjaftæði. Hann veit að það verður að stöðva leikinn. Dómaranum finnst hann verða að flauta. Þessu verður að linna. Þetta gerist of oft. Þessu var komið á til að hjálpa leikmönnum en nú misnota þeir þetta,“ bætti Carragher við.

Villa vann West Ham, 4-1. Douglas Luiz (2), Ollie Watkins og Leon Bailey skoruðu mörk Villa-manna sem eru í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, aðeins tveimur stigum frá toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×