Erlent

Börn að bera hæstan kostnað af stríðinu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi.
Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi. Vísir

Framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi segir börn bera hæstan kostnað vegna stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs. Hún segir andrúmsloftið í Miðausturlöndum einkennast af spennu og sorg

Aukinn þungi er í árásum Ísraelshers á Gaza og hátt í fimm hundruð létust í loftárásum í nótt. Brýn þörf er á hjálpargögnum og læknir segir ungbörn og sjúklinga í bráðri hættu. Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri Unicef á Íslandi, ræddi stríðið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hún segir innviði á Gasa í molum.

„Staða almennra borgara í Gasa, það er ekki hægt að lýsa henni öðruvísi en skelfilegri. Þarna ertu með tvær milljónir manna, núna hundruð þúsunda á vergangi, innviðir eru í algjörum molum, það er skortur á aðgengi á vatni, þeir eru að tala um að það sé fimm prósent geta til að framleiða vatn á svæðinu.“

Niðurbrot innviða stefni þúsundum í hættu

Birna segir vatnsskortinn og niðurbrotið á innviðum vera það sem hjálparstofnanir hafi mestar áhyggjur af. Niðurbrotið sé þegar farið að hafa áhrif.

„Það er farið að stofna lífum tugþúsunda manna í hættu vegna þess að það fara af stað sjúkdómar sem eru algjörlega fyrirbyggjanlegir og börn eru að bera hæstan kostnaðinn af þessu öllu. Þau eru í langmestri hættu af þeim sjúkdómum sem gætu farið af stað. Því miður eins og kom í fréttum núna áðan þá hafa hundruðir ef ekki þúsundir barna nú þegar dáið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×