Lífið

Svarar tröllunum og segir soninn bara með stóran heila

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Phoenix Barron er aðeins níu mánaða en hefur þrátt fyrir það fengið sinn skerf af háði og spotti frá netverjum.
Phoenix Barron er aðeins níu mánaða en hefur þrátt fyrir það fengið sinn skerf af háði og spotti frá netverjum. Instagram

Paris Hilton svaraði nettröllum sem hafa gert grín að höfuðstærð sonar hennar. Að sögn Hilton er hinn níu mánaða Phoenix heilbrigður en með stóran heila.

Raunveruleikastjarnan deildi mynd af sér og syni sínum á Instagram í síðustu viku. Netverjar voru fljótir að taka eftir höfði barnsins sem er vissulega í stærri kantinum. Í kjölfarið rigndi inn misfallegum ummælum þar sem fólk velti því fyrir sér hvað væri að barninu.

Einn fylgjandi spurði hvort drengurinn væri nokkuð með heilabólgu (e. encephalitis), annar bar hann saman við teiknimyndapersónuna Stewie Griffin og sá þriðji sagði fólki að slaka á þar sem barnið hefði bara mikið um að hugsa.

Aðrir hafa þó tekið upp hanskann fyrir strákinn. TikTok-notandinn Stephanie Tleiji fann sig knúna til að gera myndband um kommentakerfið á Instagram-síðu Hilton og þá vitleysu sem vellur þar fram.

Paris Hilton tók greinilega eftir myndbandi Tleiji af því hún skrifaði ummæli við það. „Það er til svo sjúkt fólk úti í heimi. Engillinn minn er fullkomlega hraustur,“ skrifaði hún meðal annars við myndbandið. Síðan bætti hún við „Og já, auðvitað hefur hann farið til læknis, hann er bara með stóran heila.“

Hilton birti einnig persónuleg skilaboð í Instagram-hringrás sinni þar sem hún sagði að það væri óásættanlegt að fólk beindi ummælum að barninu. 

Þá sagði hún að ekkert sem hún gerði væri nógu gott, ef hún birti ekki myndir af barninu gerði fólk ráð fyrir að hún væri vond móðir og ef hún birti myndir þá væri fólk grimmt og hatursfullt. „Ég er stolt útivinnandi móðir og barnið mitt er fullkomlega hraust, krúttlegt og engilfagurt.“

Paris skrifaði þessi skilaboð í hringrás sinni á Instagram.Instagram





Fleiri fréttir

Sjá meira


×