Erlent

Hló að spurningu um meinta tví­fara Pútíns

Árni Sæberg skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er sagður við hestaheilsu.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, er sagður við hestaheilsu. AP/Parker Song

Talsmaður stjórnvalda í Kreml hló á blaðamannafundi í morgun þegar hann var spurður út í orðróm um að Vladimír Pútín Rússlandsforseti hafi fengið hjartaáfall á sunnudag og að hann nýtti sér tvífara í stað þess að koma fram opinberlega.

Dmitry Peskov, talsmaður rússneskra stjórnvalda, boðaði til fjarblaðamannafundar í morgun líkt og hann gerir reglulega. Þar var hann spurður út í fregnir af því að Pútín hafi fengið hjartaáfall á sunnudaginn. Frá því var greint á Telegram í Rússlandi og einhverjir vestrænir miðlar vísuðu í miðilinn.

„Hann er við hestaheilsu, þetta er algjörlega enn ein falsfréttin,“ sagði Peskov.

Fregnum af meintu hjartaáfalli fylgdu fullyrðingar þess efnis að forsetinn hefði hlotið áverka við endurlífgunaraðgerðir og því hefði hann látið tvífara koma fram á opinberum vettvangi fyrir hann.

„Þetta tilheyrir flokki fáránlegrar upplýsingaóreiðu, sem heill fjölmiðlaflokkur fjallar um af aðdáunarverðri þrautsegju. Þetta er ekkert nema broslegt,“ sagði Peskov og hló.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×