Fótbolti

Ten Hag: Við höfum fundið gamla formið

Dagur Lárusson skrifar
Erik Ten Hag náði í sigur í dag
Erik Ten Hag náði í sigur í dag Vísir/Getty

Erik Ten Hag, þjálfari Manchester United, var himinlifandi eftir sigur liðsins á FCK í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Harry Maguire og Andre Onana reyndust hetjur liðsins en Maguire skoraði eina mark leiksins og Onana varði vítaspyrnu í uppbótartíma.

„Þetta var ótrúlegt, frábært kvöld og þá sérstaklega þar sem Onana varði vítaspyrnu í blálokin sem hefði aldrei átt að vera dæmd,“ byrjaði Erik Ten Hag að segja eftir leik.

„Við höfum hægt og rólega fundið gamla formið okkar aftur og síðan hafa Maguire og Onana báðir spilað mjög vel upp á síðkastið. Onana varði ekki aðeins vítið heldur varði hann meistaralega frá þeim í byrjun seinni hálfleiks,“ hélt Ten Hag áfram að segja.

„Við fengum á okkur víti sem að mínu mati var rangur dómur og síðan fengum við sjálfir ekki víti þegar það var brotið á Rashford. En sama hvað gerðist þá héldum við alltaf ró okkar sem er gjörólíkt því sem við gerðum í síðasta leik í Meistaradeildinni hér heima.“

„Þrátt fyrir dramatíkina í lokin þá var þetta sanngjarn sigur,“ endaði Ten Hag að segja eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×