Það var nóg um að vera á fyrri Meistaradeildarkvöldi vikunnar í gær þar sem Manchester United, Arsenal, Real Madrid og Bayern München fögnuðu öll sigri.
Hér fyrir neðan má sjá mörkin úr leikjum stórliðanna en þetta var þriðja umferð riðlakeppninnar hjá þeim.
Dramatíkin var hvergi meiri en á Old Trafford þar sem Manchester United vann sinn fyrsta sigur í Meistaradeildinni í ár. Harry Maguire kom liðinu í 1-0 á móti FC Kaupmannahöfn þegar átján mínútur voru til leiksloka en það var þó markvörðurinn Andre Onana sem tryggði endanlega sigurinn með því að verja víti á síðustu sekúndu uppbótartíma leiksins.
Arsenal sótti flottan sigur til Sevilla á Spáni og unnu 2-1 eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir í leiknum. Gabriel Jesus skoraði seinna markið eftir að hafa lagt upp fyrra markið fyrir Gabriel Martinelli á skemmtilegan hátt.
Jude Bellingham heldur áfram að skora fyrir Real Madrid en hann skoraði seinna mark leiksins í 2-1 sigri á Braga í Portúgal. Rodrygo hafði komið Real yfir í fyrri hálfleiknum.
Harry Kane var meðal markaskorara Bayern München í 3-1 sigri á Galatasaray en hin mörk liðsins skoruðu þeir Kingsley Coman og svo Jamal Musiala eftir undirbúning Kane.
Hér fyrir ofan og neðan má sjá svipmyndir úr þessum leikjum.