Í kvöldfréttum Stöðvar 2 hittum við Önnu Alexíu Guðmundsdóttir, sem kenndi fréttamanni að baka kleinur. Kennslan vafðist ekki fyrir Önnu enda er hún sjálf orðin algjör snillingur í kleinubakstri.
Fyrir nokkrum mánuðum stakk Anna upp á því við móður sína að fjölskyldan leggði land undir fót og heimsækti Disneyland í París. En slík ferð er kostnaðarsöm og veltu mæðgurnar fyrir sér góðri leið til að safna. Þá fékk Anna þá hugmynd að baka kleinur og selja. Síðan þá hefur hún mætt til ömmu sinnar, Sigurjónu Björgvinsdóttur, í hverri einustu viku og þær baka saman kíló af kleinum.
„Stundum vil ég það ekki, því eftir skóla og tónlistarskóla er ég pínu þreytt og nenni því ekki. En eftir á er ég alltaf bara glöð að ég gerði kleinur,“ segir Anna Alexía.
Vinir og vandamenn hafa keypt kleinur af Önnu en hún hefur einnig gengið í hús í Kópavogi, þar sem hún býr, og selt með góðum árangri. Raunar er það svo að mun færri fá en vilja.
Staðan núna er þannig að Önnu hefur tekist að safna fyrir flugmiða fyrir sig til Parísar og gott betur en það, en hún er komin langleiðina upp í miða fyrir alla fjóra meðlimi fjölskyldunnar. En DisneyWorld er ekki það eina sem heillar Önnu við París.
Mig langar líka pínu að sjá Effeilturninn og prófa svona croissant.
Leynihráefni og gæðastundir
Leynihráefnið í kleinuuppskrift Sigurjónu er súrmjólk, en auk þess segir hún mikilvægt að fylgja uppskriftinni nákvæmlega og ekki slumpa.
„Svo er annað sem þarf að passa sig á, það er að hafa deigið ekki of þykkt og ekki of þunnt. Eins og maður segir á vondri íslensku, það er svona touch eða tilfinning,“ segir Sigurjóna.
Hún segir vikulegu baksturstímana þeirra Önnu miklar gæðastundir.
„Þetta er gert með gleði. Ég er viss um að þetta er hollt fyrir hvern barn, að reyna sig í einhverju svona.“