Fótbolti

Sigurvin tekur við Þrótti

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sigurvin Ólafsson er nýr þjálfari karlaliðs Þróttar.
Sigurvin Ólafsson er nýr þjálfari karlaliðs Þróttar. Þróttur

Sigurvin Ólafsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Þróttar í knattspyrnu. Hann skrifar undr þriggja ára samning við félagið.

Sigurvinn tekur við liðinu af Ian Jeffs sem lét af störfum að tímabilinu loknu. Þróttur hafnaði í áttunda sæti Lengjudeildarinnar í sumar undir stjórn Jeffs.

Sigurvin á að baki farsælan feril sem leikmaður þar sem hann lék fyrir lið á borð við ÍBV, KR, FH og Fram í efstu deild, ásamt því að hann var um tíma á mála hjá þýska liðinu Stuttgart. Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari á leikmannaferli sínum og lék sjö leiki fyrir íslenska landsliðið. Þá kemur einnig fram í tilkynningu Þróttar að Sigurvin hafi á ferli sínum leikið fimm leiki fyrir SR, venslalið Þróttar.

Á þjálfaraferli sínum stýrði Sigurvin KV frá 2018 til 2021 og fór með liðið upp um tvær deildir á þremur árum, úr 3. deildinni upp í Lengjudeildina. Þá var hann aðstoðarþjálfari KR sumarið 2021 og aðstoðarþjálfari FH 2022 til 2023.

„Það er óhætt að fagna ráðningu Sigurvins til Þróttar. Hann er mjög metnaðarfullur og hugmyndir hans og félagsins fara mjög vel saman,“ segir Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×