Fótbolti

Biður enska knatt­spyrnu­sam­bandið að hætta að rann­saka færslu Garnacho

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
André Onana segir að Garnacho hafi ekki meint neitt slæmt með færslu sinni.
André Onana segir að Garnacho hafi ekki meint neitt slæmt með færslu sinni. Alex Livesey/Getty Images

André Onana, markvörður Manchester United, hefur beðið enska knattspyrnusambandið um að hætta að rannsaka samfélagsmiðlafærslu Alejandro Garnacho eftir að Argentínumaðurinn birti mynd af Onana og lét tjákn með górillum fylgja með.

Onana reyndist hetja Manchester United er liðið vann nauman 1-0 sigur gegn FC Kaupmannahöfn í Meistaradeild Evrópu síðastliðinn þriðjudag. Markvörðurinn varði þá vítaspyrnu frá Jordan Larsson á sjöundu mínútu uppbótartíma og sá til þess að United þurfti ekki að skipta stigunum með sér.

Í kjölfarið birti Alejandro Garnacho, samherji Onana, mynd af markverðinum þar sem hann fagnar vörslunni á samfélagsmiðlum sínum. Með myndinni fylgdi enginn texti, aðeins tvö tjákn sem sýndu górillur.

Færslan fór fyrir brjóstið á einhverjum og enska knattspyrnusambandið, FA, ákvað að skoða málið betur. Einhverjir gætu túlkað færsluna sem kynþáttafordóma þar sem apahljóðum hefur verið beint að þeldökkum leikmönnum, en Onana biður sambandið einfaldlega um að hætta að rannsaka færsluna. Hann viti vel hvað Garnacho hafi meint með henni.

„Fólk getur ekki valið hvað það er sem ég móðgast yfir,“ ritaði Onana á samfélagsmiðla sína. „Ég veit nákvæmlega hvað Garnacho meinti með þessu: Kraftur og styrkur. Þetta mál ætti ekki að fara neitt lengra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×