Erlent

Fyrr­verandi for­sætis­ráð­herra Kína látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Li Keqiang var menntaður hagfræðingur og ekki í innsta hring Xi Jinping forseta.
Li Keqiang var menntaður hagfræðingur og ekki í innsta hring Xi Jinping forseta. AP

Li Keqiang, sem gegndi embætti forsætisráðherra Kína frá árinu 2013 til marsmánaðar á þessu ári, er látinn. Hann varð 68 ára gamall.

Kínverski ríkisfjölmiðillinn Xinhua greinir frá því að hann hafi látist í Sjanghæ í morgun eftir að hafa fengið hjartaáfall.

Li Keqiang tók við embætti forsætisráðherra árið 2013 en Li Qiang tók við embættinu af honum í mars, fyrr á þessu ári.

Eftir að hafa staðið í stafni við breytingar í kínversku efnahagslífi um árabil og verið næstvaldamesti stjórnmálamaður landsins á eftir Xi Jinping Kínaforseta, missti hann stöðu sína í flokksstjórn í Kínverska kommúnistaflokknum í október á síðasta ári.

Margir höfðu á sínum tíma spáð því að Li Keqiang yrði arftaki Hu Jintao, fyrrverandi forseta, á valdastóli, en eftir að Xi tók við forsetaembættinu var hann Li sá eini í flokksráði Kommúnistaflokksins sem var ekki í innsta hring Xi forseta. Xi tók við embætti Kínaforseta árið 2012.

Li Keqiang var menntaður hagfræðingur og talaði áður fyrir því að bæta starfsumhverfið fyrir einkareknin nýsköpunarfyrirtæki. Í stjórnartíð Xi hafa kínversk stjórnvöld hins vegar lagt aukna áherslu á ríkisrekstur, auk þess að herða ítök kínverska ríkisins í tæknigeiranum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×