Lífið

Hitti konuna sem drullaði yfir hana á for­eldra­fundi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Kamilla Einarsdóttir er þekkt fyrir að takast á við lífið með jákvæðnina og húmorinn að vopni.
Kamilla Einarsdóttir er þekkt fyrir að takast á við lífið með jákvæðnina og húmorinn að vopni. Vísir/Vilhelm

Kamilla Einars­dóttir, rit­höfundur og bóka­vörður, segist ekki nenna lengur að láta allt flakka á sam­fé­lags­miðlum. Hún segir fyndið hve margir haldi að þeir viti allt um hana vegna sam­fé­lags­miðla­notkunar hennar.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í Einka­lífinu á Vísi þar sem Kamilla er gestur. Kamilla er þekkt fyrir húmor sinn og ræðir eigið hispurs­­leysi á sam­­fé­lags­­miðlum, en einnig veikindi móður sinnar sem er með ó­­­læknandi krabba­­mein og hvernig fjöl­­skyldan hefur tekist á við þau með já­­kvæðnina og Duolingo að vopni.

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan. Einnig er hægt að hlusta á þáttinn í hlaðvarpsformi á öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Sumt er ó­geðs­legt yfir­drull

„Ég segi alltaf að ég pæli ekki í þeim,“ segir Kamilla um gagn­rýni sem bækur hennar hafi fengið á sam­fé­lags­miðlum líkt og Goodreads.

„Það er ekki hægt að taka þessu öllu inn á sig. Ég skoða ekki Goodreads en vinir mínir hafa verið að senda mér þetta, því að sumt er svo ó­geðs­legt yfir­drull að það er alveg fyndið.“

Kamilla segir gagn­rýnina allskonar, sumt sé per­sónu­legra en annað. Hún hafi eitt sinn hitt eina konu sem hafi fundist hún ömur­leg á for­eldra­fundi.

Nokkur dæmi um skrif á Goodreads um bækur Kamillu, Kópavogskróniku og Tilfinningar eru fyrir aumingja.

„Svo lentum við svona saman á stórum for­eldra­fundi. Það var fyndið en henni má alveg finnast þetta. Nú lendi ég í veseni á næsta for­eldra­fundi,“ segir Kamilla hlæjandi.

„Nei nei, en ef ein­hver er að rakka niður verk manns þá bara gera þau það, ég fer ekki að taka því inn á mig. Hún þekkir mig samt ekkert. Mér þætti verra ef það væri ein­hver ná­kominn mér, þá þyrfti ég að hlusta og taka mark á því.“

Hætt að deila jafn miklu á sam­fé­lags­miðlum

Kamilla er þekkt fyrir húmor sinn og já­kvæðni. Hún hefur undan­farin ár verið dug­leg að deila reynslu­sögum úr eigin lífi á sam­fé­lags­miðlum, meðal annars ástar­lífinu. Hún fékk enda verð­laun, Rauðu hrafns­fjöðurina fyrir for­vitni­legustu kyn­lífs­lýsinguna í bók sinni, Kópa­vog­skrónikan, árið 2019.

„Ég var rosa virk á Twitter á tíma­bili en ég hef dregið mjög mikið úr því. Núna er náttúru­lega mjög skrítinn tími í þessum sam­fé­lags­miðla­heimi og maður nennir ekki lengur að láta allt flakka.“

Kamilla segir að sér finnist það fyndið þegar fólk segir við hana að það viti allt um hana, þar sem það sé að fylgja henni á sam­fé­lags­miðlum. Hún segir að það sé á­kveðin út­gáfa af sér sem hún setji á netið.

Er það?

„Er það ekki? Þú veist ekkert eitt­hvað í al­vörunni um mann­eskju þú þú sért að followa hana,“ segir Kamilla sem segir að hún hafi alltaf upp­lifað sig lokaða að eðlis­fari.

„Auð­vitað er maður það ekki að ein­hverju leyti, en al­vöru líf fólks, að láta eitt­hvað gossa um fyndna brandara um ein­hverjar upp­á­ferðir, mér finnst það allt í lagi - en ég er ekkert endi­lega rosa opin með til­finningar mínar og eitt­hvað svona og mér finnst það ekki skipta neinu máli, mér er alveg sama.

Við erum öll eitt­hvað að borða, ríða og fara á klósettið og deyja. Það er ekkert eitt­hvað merki­legt.“

Inn­flutt amerísk hug­mynd

Kamilla er ein­hleyp. Hún tekur fram að hún hafi verið gríðar­lega heppin með maka í gegnum tíðina en segir það frá­bært að vera ein­hleyp.

„Eigum við ekki að hafa síma­númerið mitt rúllandi undir?“ segir hún hlæjandi. „Mér finnst það frá­bært og mjög skemmti­legt. Ég mæli líka með því. Ég er ekki á neinum svona dating öppum og mér finnst sam­bönd mjög skrítin. Mér finnst deit fá­rán­leg hug­mynd.“

Kamilla segir það hafa marga kosti í för með sér að vera einhleypur. Vísir/Vilhelm

Kamilla segist ekki hafa miklar á­hyggjur af því að finna þann „eina rétta.“ Kannski muni hún hitta við­komandi en ef ekki þá skiptir það hana engu máli.

„Ég á ó­geðs­lega mikið af vinum og það er nóg að gera. Ég held að fólk sé alveg búið að gefast upp á því með mig og hafi enga trú á því að það muni gerast,“ segir Kamilla hlæjandi. Hún segir marga hafa spurt hana hvort þeir ættu að koma henni saman með frænda sínum eða frænku.

„Maður er bara eitt­hvað: „Nei nei, þetta er allt í lagi, ég er bara slök.“ Ég er ekkert að stressa mig á þessu. Mér finnst þetta bara. Ég held þetta sé bara ein­hver inn­flutt amerísk hug­mynd.“

Um þennan eina rétta?

„Já guð. Það er náttúru­lega al­gjör vit­leysa. Hvað þá að sam­bönd séu eitt­hvað frá­bær. Það er líka stað­reynd að þú ert búin að marg­falda líkurnar á að þú verðir myrtur ef þú ferð í sam­band, það eru kostir og gallar við þetta.“

Okkur er öllum ýtt út í þetta? Við eigum öll að vera í sam­bandi?

„Já, kannski. En það eru líka alltaf miklu miklu fleiri sem á­kveða að vera einir, af því að það hefur bara mjög marga kosti að ráða sér sjálfur.“

Einnig er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni á öllum helstu hlaðvarpsveitum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×