Lífið

Stjörnurnar minnast Matthew Perry

Samúel Karl Ólason skrifar
Matthew Perry var 54 ára gamall.
Matthew Perry var 54 ára gamall. AP/Rich Fury

Leikarar, forsætisráðherra, íþróttalið og jafnvel sjónvarpsstöðvar eru meðal þeirra sem hafa minnst leikarans Matthew Perry sem fannst látinn á heimili sínu í Los Angeles í gær. Perry, sem lék, eins og flestir vita, Chandler Bing í þáttunum Friends, var 54 ára gamall.

Friends eru einhverjir vinsælustu þættir sögunnar. 

Perry fannst meðvitundarlaus í heitum potti sínum í gær en samkvæmt heimildum LA Times er ekki talið að dauða hans hafi borið að með saknæmum hætti og fundust engin fíkniefni á vettvangi. Perry hafði í gegnum árin glímt við fíkn.

Sjá einnig: Matthew Perry látinn

Síðasta myndin sem Perry birt af sér á samfélagsmiðlum var af sér í heitum potti.

Fjölmargir sem þekktu Perry og unnu með honum í gegnum árin hafa birt samúðarkveðjur og og minningarorð á samfélagsmiðlum í morgun. Hinir „Vinirnir“ sem léku í þáttunum vinsælu hafa ekki tjáð sig um dauða Perry enn.

Perry var minnst á formlegri Instagramsíðu Friends þáttanna og Warner Bros. framleiðenda þáttanna.

Hans var einnig minnst á formlegri síðu NBC á X.

Hokkíliðið Ottawa Senators, sem Perry hélt uppá, minntist hans einnig.

Meðal þeirra sem hafa einnig minnst Perry er Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada. Þeir voru saman í grunnskóla og Trudeaus segist aldrei muna gleyma leikjum þeirra á skólalóðinni.

„Og ég veit að fólk um heiminn allan mun aldrei gleyma gleðinni sem hann færði þeim. Takk fyrir allan hláturinn, Matthew. Þú varst elskaður og þín verður saknað,“ skrifaði Trudeau á X.

Maggie Wheeler, sem lék Janice, kærustu Chandlers, birti mynd af þeim úr þáttunum og sagðist þakklát fyrir að hafa kynnst honum.

Morgan Fairchild, sem lék móður Chandler Bing í Friends, hefur einnig minnst Perry á samfélagsmiðlum. Hún segist í áfalli og að hjarta hennar sé brostið.

Shannon Doherty þekkti Perry lengi og skrifaði langa færslu í nótt þar sem meðal annars kom fram að þau hefðu alist upp saman.

Leikkonan Selma Blair birti mynd af sér með Perry og sagði hann hafa verið elsta strákavin sinn. Þau hefðu elskað hvort annað og hún sé miður sín.

Leikkonan Laura Benanti, sem lék með Perry í skammlífum grínþáttum sem kölluðust Go On minntist hans einnig. Hún sagði Perry hafa verið gjafmildan, magnaðan og einstaklega hæfileikaríkan.

Meredith Salenger, sem kynntist Perry þegar þau voru sextán ára gömul segist miður sín. Þau léku saman í A Night in the Life of Jimmy Reardon frá 1988.

Michael Rapaport, sem brá reglulega fyrir í Friends, minntist Perry með því að segja hann ávallt hafa verið svalan, rólegan og hæfileikaríkan. Hann sagði að Perry myndi að eilífu vera hluti af menningu Bandaríkjanna.

Rumor Willis, dóttir Bruce Willis, sem lék með þeim báðum í kvikmyndunum Whole Nine Yards og Whole Ten Yards skrifaði í Story á Instagram að hún væri miður sín. Perry hefði verið mjög indæll við hana og systur hennar við gerð kvikmyndanna.

Alyssa Milano birti myndband og myndir af sér með Perry og sagði hann alltaf hafa verið fyndnasta manninn í herberginu og þann ljúfasta.

Söngkonan Adele stöðvaði sýningu sína í Las Vegas í nótt til að tala um Perry, þó hún þekkti hann ekki neitt.

Paget Brewster var í fjórðu þáttaröð Friends. Hún lék kærustu Joey en Chandler varð einnig skotinn í henni. Hún segir Perry hafa verið indælan við tökur og í hvert sinn sem þau hittust eftir það. Hún hvetur fólk til að lesa bókina hans, þar sem hann skrifaði um baráttu sína við fíknina og annað.

Brewster segir að Perry muni ekki hvíla í friði. Hann sé þegar of upptekinn að „láta alla hlæja þarna uppi“.

Aisha Tyler segir Perry hafa verið einstaklega ljúfan og gjafmildan og að hún hafi lært hvernig segja á brandara með því að horfa á hann leika. Þá segist hún aldrei muna gleyma því þegar hún var að fara að taka upp sitt fyrsta atriði í Friends, þar sem hún lék kærustu Ross um tíma, þegar Perry sagði við hana:

„Búðu þig undir að líf þitt muni breytast.“

Birta Björnsdóttir, fréttamaður Ríkisútvarpsins, minntist Perry í morgun með mynd úr Friends.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×