Innlent

Riða greindist í kind í Húna­þingi vestra

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Á hverju hausti er tekinn fjöldi sýna úr fullorðnu fé sem sent er til slátrunar. Myndin er úr safni.
Á hverju hausti er tekinn fjöldi sýna úr fullorðnu fé sem sent er til slátrunar. Myndin er úr safni. Vísir/Magnús Hlynur

Kind frá bænum Stórhóli í Húnaþingi vestra greindist með riðu í nýlegri sýnatöku. Matvælastofnun er byrjuð að undirbúa aðgerðir þar sem faraldsfræðilegum upplýsingum verður safnað og áhersla lögð á að rekja hvert kindur af bænum hafa verið fluttar.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Matvælastofnunar. Þar segir að fyrir helgi hafi stofnuninni borist tilkynning frá Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Þar kom fram að sýni úr sláturfé hefði reynst jákvætt með tilliti til riðu.

Um sé að ræða eitt jákvætt sýni úr tveggja vetra á frá bænum Stórhóli í Húnaþingi Vestra. Á bænum eru um 600 kindur.

„Á hverju hausti tekinn fjöldi sýna úr fullorðnu fé sem sent er til slátrunar og þau rannsökuð m.t.t. riðu. Þetta sýni var eitt af slíkum sýnum. Ekki hafði borið á neinum sjúkdómseinkennum í viðkomandi kind né öðrum á bænum,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Bærinn tilheyrir Húna- og Skagahólfs. Riða greindist síðast á bænum árið 2006 en á nágrannabæ hans árið 2021. Matvælastofnun hefur hafið aðgerðir. 

Garðar Valur Gíslason, bóndi á Stórhóli, segir í samtali við fréttastofu óljóst hvaða þýðingu þetta hafi. Hann ætlar að láta einhverja daga líða áður en hann ræðir málið frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×