Fótbolti

Hafa ekki skorað á móti Þýskalandi á íslenskri grundu í 37 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdottir í leik á móti þýska landsliðinu á Laugardalsvellinum í september fyrir fimm árum síðan.
Sara Björk Gunnarsdottir í leik á móti þýska landsliðinu á Laugardalsvellinum í september fyrir fimm árum síðan. Getty/Brynjar

Þýskum landsliðskonum hefur gengið afar vel í heimsóknum sínum til Íslands í gegnum tíðina. Ekki aðeins hafa þær unnið alla leikina heldur hefur íslenska liðinu ekki tekist heldur að skora.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir í kvöld Þýskalandi í síðasta heimaleik sínum í Þjóðadeild kvenna.

Fyrri leikurinn tapaðist 4-0 út í Þýskalandi í leik sem íslensku stelpurnar komust lítið áleiðis. Það hefur einni verið raunin í fimm heimsóknum þýska kvennalandsliðsins til Íslands.

Eini sigur Íslands á Þýskalandi hjá A-landsliðum kvenna kom í Þýskalandi í október 2017 þegar íslensku stelpurnar unnu eftirminnilegan 3-2 sigur. Þjóðverjar hafa unnið alla hina sextán leiki þjóðanna og markalatan í þeim er 62-3 þeim í vil.

Það sem vekur þó sérstaklega athygli er gengið gegn þeim þýsku á heimavelli. Þjóðverjar hafa unnið alla leikina og skorað í þeim 21 mark gegn aðeins einu.

Það eru núna liðin 37 ár og rúmir þrír mánuðir síðan íslenska kvennalandsliðið skoraði þetta eina mark sitt á móti Þýskalandi á íslenskri grundu.

Markið skoraði Katrín María Eiríksdóttir í 4-1 tapi á Kópavogsvelli 27. júlí 1996. Markið kom á 87. mínútu.

Síðan þá hafa íslensku stelpurnar spilað fjóra heila leiki á móti Þýskalandi og fengið á sig sextán mörk í röð án þess að svara fyrir sig.

Nú eru liðnar 363 mínútur síðan Ísland skoraði á móti Þýskalandi á Íslandi. Þrír af þessum leikjum fóru fram á Laugardalsvellinum og á sjálfum þjóðarleikvanginum er markatalan 10-0 Þýskalandi í vil.

  • Leikir Íslands og Þýskalands á Íslandi:
  • September 2018: Þýskaland vann 2-0
  • Ágúst 2000: Þýskaland vann 6-0
  • September 1996: Þýskaland vann 3-0
  • Júlí 1986: Þýskaland vann 5-0
  • Júlí 1986: Þýskaland vann 4-1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×