Erlent

Eitraði fyrir kærastanum þegar hann erfði milljónir

Samúel Karl Ólason skrifar
Konan er sögð hafa staðið í þeirri trú að hún ætti rétt á helmingi arfs kærasta síns og varð reið þegar henni var bent á að svo var ekki.
Konan er sögð hafa staðið í þeirri trú að hún ætti rétt á helmingi arfs kærasta síns og varð reið þegar henni var bent á að svo var ekki. Getty

Kona hefur verið ákærð í Norður-Dakóta ríki í Bandaríkjunum fyrir að myrða kærasta sinn með eitri. Sá hafði erft þrjátíu milljónir dala og ætlaði að segja henni upp. Ina Thea Kenoyer er sökuð um hafa banað Steven Edward Riley Jr., kærasta til tíu ára vegna þess að hún stóð í þeirri trú að hún myndi fá hluta peninganna.

Starfsfólk í félagsþjónustu var kallað heimili þeirra þann 4. september og fann hinn 51 árs gamla Riley meðvitundarlausan. Hann lést á sjúkrahúsi degi síðar. Kenoyer, sem er 47 ára, sagði hann hafa fengið hitaslag. Krufning leiddi í ljóst að hann hafði innbyrt frostlög.

Vinir Riley og ættingjar telja, samkvæmt frétt New York Times, að Kenoyer hafi eitrað fyrir honum. Á hún að hafa hótað því áður en hann dó. Rannsakendur segja parið hafa deilt vegna nýlegs arfs Rileys, eða um þrjátíu milljónir dala, eða rúma fjóra milljarða króna, og ætlaði hann hætta með Kenoyer.

Vinur Kenoyer sagði lögregluþjónum að hann hefði séð hana kasta eigum Riley, daginn sem hann varð lasinn. Hún hafi sagt að Riley ætlaði að yfirgefa sig eftir að hann fengi arfinn.

Saksóknarar segja að Riley hafi orðið lasinn 3. september, eftir að hann hafði hitt lögmann og tryggt sér áðurnefndan arð, og vinir hans hafi viljað að hann leitaði til læknis. Kenoyer er sögð hafa komið í veg fyrir það og staðhæft að hann hefði fengið hitaslag.

Vinur Riley ætlaði svo að heimsækja hann síðar þann dag en Kenoyer á að hafa sagt honum að Riley væri hjá lækni í bænum Minot. Vinurinn kannaði það, fann Riley hvergi og fékk þau svör að hann hefði aldrei verið þar. Lögreglan segir Kenoyer hafa verið eina með Riley í minnst tólf tíma áður en hann leitaði sér læknisaðstoðar þann 4. september.

Segist saklaus

Héraðsmiðillinn KFYRTV segir að Kenoyer hafi komið fyrir dómara í gær. Hún hafi verið úrskurðuð í gæsluvarðhald en að hún geti gengið laus fram að réttarhöldum gegn milljón dala í tryggingu. Kenoyer sagðist saklaus.

Hún sagði lögregluþjónum við yfirheyrslu að hún ætti rétt á arfinum, því þau Riley væru búin að vera lengi saman, og hún ætlaði að deila arfinum með syni Riley. Sum ríki Bandaríkjanna eru með lög um að langvarandi sambönd geta talist hjónabönd fyrir lögum. Norður-Dakóta er ekki eitt þeirra ríkja.

Þegar lögregluþjónar útskýrðu það fyrir Kenoyer er hún sögð hafa orðið bálreið.

Þegar lögreglan leitaði á heimili þeirra fannst flaska af hreinsiefni sem talin er hafa innihaldið frostlög, tóma bjórflösku og glas, sem einnig er talið hafa innihaldið frostlög.

Aðspurð af lögregluþjónum um hvers vegna frostlögur fannst í Riley, sagði Kenoyer að hann hefði mögulega reykt sígarettu sem hefði fallið í frostlög í bílskúr þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×