Slysið varð við Ásvelli í Hafnarfirði á mánudaginn við bílastæði milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka. Átta ára drengur á reiðhjóli lést í slysinu þegar hann varð fyrir steypubíl.
Mikill samhugur
Drengurinn var nemandi við Hraunvallaskóla og æfði fótbolta hjá Haukum. Í gærkvöldi var haldin bænastund fyrir starfsmenn skólans og íþróttafélagsins, sem og foreldra þeirra barna sem þekktu drenginn. Bænastundin fór fram í Ástjarnarkirkju og segir séra Bolli Pétur Bollason að mikill samhugur og kærleikur hafi verið milli þeirra sem mættu.
„Virkilega, virkilega góð stund. Svo var farið yfir ákveðna praktíska hluti sem tengjast málinu og hvernig við mætum sorginni. Hvernig við mætum börnunum okkar í sorg. Því þetta slær allt samfélagið. Það verður enginn ósnortinn þegar svona gerist,“ segir Bolli.
Fjölskylda drengsins mætti og segir Bolli það hafa verið dýrmætt að sjá hana finna fyrir stuðningi samfélagsins í Hafnarfirði.
„Maður finnur fyrir, svo það sé sagt, maður finnur fyrir mjög mikilli samstöðu meðal þessara stofnana og félaga hérna í Hafnarfirði. Það leggjast allir á eitt að reyna að milda og græða þessi sár sem hér eru eftir þennan mikla harmleik,“ segir Bolli.
Opin bænastund í kvöld
Í kvöld fer fram önnur bænastund sem verður opin fyrir öllum þeim sem vilja mæta.
„Kirkjan verður öllum opin og allir geta komið og vottað hinum látna virðingu sína. Sýnt aðstandendum og öðrum í samfélaginu samhug. Við munum leiða þessa stund prestarnir og það verður tónlist inn á milli. Við reynum að búa til fallegt umhverfi með kertaljósum og slíku,“ segir Bolli.