Körfubolti

Dedrick Basi­le: Það vinnur enginn Ís­lands­meistara­titil í nóvember

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Dedrick Basile var allt í öllu hjá Grindavík í kvöld.
Dedrick Basile var allt í öllu hjá Grindavík í kvöld. Vísir/Anton Brink

Njarðvíkingar tóku á móti Grindavík í Ljónagryfjunni í kvöld þegar 5. umferð Subway-deildar karla hóf göngu sína. Þar fór Dedrick Basile á kostum í sigri Grindvíkinga.

Grindavík hafa byrjað frekar illa á tímabilinu en sóttu sinn fyrsta sigur í síðustu umferð og freistuðu þess að halda sigurgöngunni áfram þegar þeir heimsóttu nágranna sína í Njarðvík. 

Eftir mikinn baráttuleik sem sveiflaðist fram og til baka voru það Grindavík sem höfðu að lokum sigur þar sem Dedrick Basile lék gömlu félagana grátt, lokatölur 87-95 og Grindavík unnið tvo leiki í röð. Dedrick Basile var atkvæðamestur í liði Grindavíkur en hann endaði leikinn með 30 stig, fjórar stoðsendingar og þrjú fráköst.

„Leikurinn í dag var stórkostlegur og það er frábært að koma aftur til Njarðvíkur. Ég elska þennan stað og ég er virkilega þakklátur að fá að koma hingað aftur og sækja þennan sigur,“ sagði Dedrick Basile leikmaður Grindavíkur eftir leikinn í kvöld.

Dedrick Basile spilaði síðustu tvö ár með Njarðvíkingum og viðurkenndi að hann hafi hlakkað til þess að mæta aftur í Ljónagryfjuna.

„Já auðvitað. Ég var tilbúin til þess að koma hingað aftur og það var frábært að spila gegn strákunum sem ég spilaði með í tvö ár og við fórum í gegnum margt saman svo það var frábært að koma aftur hingað og sækja sigur.“

Það vakti athygli undir lok leiks þegar baulað var alhressilega á Dedrick Basile af stuðningsmönnum Njarðvíkur og átti hann í einhverjum orðaskiptum við stúkuna í kjölfarið.

„Já það kom mér virkilega á óvart. Mér finnst ég og Njarðvík hafa átt tvö upp og niður ár en það er mikil ástríða í Njarðvík og ég elska það. Það hvatti mig áfram til að leggja enn harðar að mér.“

Grindavík byrjaði tímabilið brösuglega og tapaði fyrstu þrem leikjum sínum í deildinni en hafa núna komið gríðarlega sterkir til leiks í síðustu tveim leikjum og sótt tvo góða sigra í röð.

„Þetta er ferli og það vinnur enginn Íslandsmeistaratitil í nóvember. Í fyrstu þrem leikjunum vorum við ekki með fullan hóp en í síðustu tveim leikjum höfum við haft fullan hóp og við erum að byggja á það einn leik í einu.“

Aðspurður hvort það væri hægt að búast við meiru frá þessu Grindavíkurliði á næstu vikum var svarið einfalt.

„Já, við erum að koma.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×