Fótbolti

Rann­saka hvort Tonali hafi brotið veð­mála­reglur eftir að hann fór til New­cast­le

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Enska knattspyrnusambandið rannsakar nú hvort Sandro Tonali hafi haldið áfram að brjóta veðmálareglur eftir að hann gekk í raðir Newcastle frá AC Milan.
Enska knattspyrnusambandið rannsakar nú hvort Sandro Tonali hafi haldið áfram að brjóta veðmálareglur eftir að hann gekk í raðir Newcastle frá AC Milan. Richard Sellers/Sportsphoto/Allstar via Getty Images

Enska knattspyrnusambandið, FA, rannsakar nú hvort Sandro Tonali, leikmaður Newcastle, hafi brotið veðmálareglur eftir að hann gekk í raðir liðsins frá AC Milan í sumar.

Tonali gekk í raðir Newcastle frá AC Milan í sumar og hafði aðeins leikið tólf leiki fyrir enska úrvalsdeildarfélagið þegar hann var fundinn sekur um brot á veðmálareglum og í kjlfarið dæmdur í tíu mánaða bann frá knattspyrnuiðkun af ítalska knattspyrnusambandinu. Stuttu síðar var bannið svo staðfest af FIFA og Tonali mun því ekki leika með Newcastle á ný fyrr en á næsta tímabili.

Enska knattspyrnusambandið rannsakar nú hvort Tonali hafi einnig brotið veðmálareglur eftir að hann gekk í raðir Newcastle frá ítalska stórveldinu, en Newcastle greiddi um 55 milljónir punda fyrir leikmanninn í júlí á þessu ári.

Þá segir Dan Ashworth, yfirmaður knattspyrnumála hjá Newcaslte, að félagið geti ekki gert sér grein fyrir því að svo stöddu hvort forráðamenn AC Milan hafi vitað af brotum Tonali þegar hann var keyptur í sumar.

„Það er erfitt fyrir mig að fara út í það hvað önnur félög vita og vita ekki,“ sagði Ashworth í samtali við BBC.

„Það eina sem við getum gert er að skoða okkar eigin rannsókn á málinu innanhúss. Þetta er mjög erfið spurning fyrir mig því ég einfaldlega veit það ekki.“

„Þetta kom okkur auðvitað í opna skjöldu og við vorum mjög hissa. Að eiga við þetta er nýtt fyrir okkur öllum. Þetta kom upp úr þurru.“

Þá hefur BBC einnig sent fyrirspurn til forráðamanna AC Milan þar sem þeir eru spurðir út í það hvort þeir hafi vitað af brotum leikmannsins, en ekkert svar hefur borist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×