Aðalritari Sameinuðu þjóðanna segir hvergi öruggt að vera á Gasa. Tugir voru drepnir og fleiri særðir í árásum á flóttamannasvæði að sögn sérfræðinga á spítala í nágrenninu. Varnarmálayfirvöld í Ísrael segja að fólk á Gasa svæðinu hafi fjögurra klukkutíma ramma í dag til að flýja suður.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur undanfarna daga fundað með leiðtogum ýmissa ríkja um vopnahlé af mannúðarástæðum. Samkvæmt BBC hittir hann forseta Palestínu í dag.
Sú krafa er víða hávær og er Ísland engin undantekning. Hjálmtýr Heiðdal, formaður félagsins Ísland-Palestína, býst við miklu fjölmenni á samstöðufundinn til stuðnings Palestínu í dag sem fer fram í Háskólabíói klukkan tvö enda margir búnir að melda sig á viðburðinn á Facebook.
„Við erum búin að vera með þrjá útifundi og tvær göngur og það hefur alltaf vaxið. Við vorum með kertafleytingu við tjörnina og það komu um tvö þúsund manns,“ segir Hjálmtýr. Yfirskrift fundarins í dag sé sú sama og á fyrri fundum.
„Við krefjumst þess að það verði strax vopnahlé og að Ísland taki afstöðu gegn þessum fjöldamorðum og lýsi yfir fordæmingu á Ísrael eins og þeir hafa lýst yfir fordæmingu á Hamas,“ segir Hjálmtýr og bætir við að félagið sé hvergi nærri hætt.
„Það verða fleiri fundir, ástandið er ekkert að batna, það er að versna og svo lengi sem það er munum við halda áfram og við munum reyna að vekja okkar stjórnvöld,“ segir Hjálmtýr að lokum.