Viðskipti erlent

Novo Nordisk orðið verð­mætasta fyrir­tæki Evrópu

Jóhann Hlíðar Harðarson skrifar
Novo Nordisk framleiðir meðal annars lyfin Ozempic og Wegovy.
Novo Nordisk framleiðir meðal annars lyfin Ozempic og Wegovy. EPA

Danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk hefur hagnast um rúmlega tólf hundruð milljarða íslenskra króna það sem af er ári. Þessi methagnaður einn og sér er ástæða þess að hagvöxtur í Danmörku er jákvæður í stað þess að vera neikvæður, en fyrirtækið er nú talið verðmætasta fyrirtæki Evrópu.

Danska lyfjafyrirtækið Novo Nordisk hefur skilað hagnaði upp á 62 milljarða danskra króna á fyrstu níu mánuðum þessa árs. Það svarar til 1.240 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið seldi lyf fyrir 166 milljarða danskra króna sem er 29 prósenta aukning miðað við sama tíma í fyrra.

Verðmætasta fyrirtæki Evrópu

Lars Fruergaard Jørgensen, forstjóri Novo Nordisk, sagði þegar uppgjör 3. ársfjórðungs var birt í vikunni að stjórnendur fyrirtækisins væru mjög sáttir með vöxt fyrirtækisins. Það verður að teljast vægt til orða tekið, því vöxtur fyrirtækisins hefur verið með miklum ólíkindum á síðustu misserum. Fyrirtækið er nú talið verðmætasta fyrirtæki Evrópu og er það metið á um 48 þúsund milljarða íslenskra króna. Hlutabréf fyrirtækisins hafa hækkað um 46% frá ársbyrjun.

Tvö lyf gegn offitu ástæða velgengninnar

Þessa gríðarlegu velgengni má fyrst og fremst rekja til tveggja lyfja sem notuð eru til að berjast gegn offitu, Ozempic og Wegovy, en fyrrnefnda lyfið var upphaflega þróað sem sykursýkislyf. Talið er að um 650 milljónir jarðarbúa stríði við offitu. Sala þessara lyfja hefur aukist um 157% á þessu ári miðað við söluna í fyrra og nú er svo komið að fyrirtækið annar engan veginn eftirspurn. Þessa sprengingu má að öllu leyti rekja til þess að lyfin fóru á markað í Bandaríkjunum fyrir u.þ.b. ári, en talið er að 70% Bandaríkjamanna stríði við offitu. Þar keppast menn hver um annan þveran að dásama lyfin á samfélagsmiðlum og lýsa því hvernig þeir nánast skreppa saman eins og lopapeysur í suðuþvotti.

Lars Olsen, hagfræðingur Danske Bank segir í samtali við frönsku fréttaveituna AFP að það sé Novo Nordisk einu að þakka að hagvöxtur hafi verið jákvæður í Danmörku á fyrri helmingi þessa árs. Jonas Petersen, sérfræðingu hjá Hagstofu Danmerkur segir að hraður vöxtur Novo Nordisk sé án nokkurrar hliðstæðu í dönsku efnahagslífi, en fyrirtækið fagnar í ár 100 ára afmæli sínu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×