Skoðun

Hryllings­sögur um of­sóknir á hin­segin fólki

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Undanfarið höfum við, því miður, orðið vitni að bakslagi þegar kemur að réttindum hinsegin fólks, m.a.s. í okkar heimshluta. Í heiminum öllum telst mér svo til að í einu af hverjum þremur ríkjum teljist hinsegin sambönd enn vera glæpur lögum samkvæmt. Ástandið er mjög slæmt að þessu leyti víða í Afríku og í Mið-Austurlöndum, m.a. þar sem við störfum við þróunarsamvinnu. Hryllingssögur þaðan um ofsóknir á hinsegin fólki láta engan ósnortinn.

Sem dæmi má nefna, þá undirritaði forseti Úganda nýlega þá löggjöf heims sem gengur lengst í andstöðu við réttindi hinsegin fólks. Við höfum sendiráð í Úganda og höfum haft þar tvíhliða þróunarsamvinnu áratugum saman. Nú liggur dauðarefsing við samkynhneigð í ríkinu. Lögin voru samþykkt á þingi Úganda með yfirgnæfandi meirihluta.

Ég spurði því utanríkisráðherra um þetta á Alþingi. Þar spurði ég hann út í áherslu á réttindabaráttu hinsegin fólks í þróunarsamvinnu Íslands. Jafnframt hvort hann hygðist leggja aukna áherslu á réttindabaráttu hinsegin fólks á þessum vettvangi og þá með hvaða hætti. Enda virðist fullt tilefni til.

Utanríkisráðherra greindi frá að á síðustu árum hefði utanríkisþjónustan beitt sér af sífellt meiri þunga í baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. Það gerum við með virku málsvarastarfi, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans og í Evrópuráðinu, en einnig með fjárframlögum. Við fylgjumst grannt með stöðunni í samstarfs- og áherslulöndum okkar í þróunarsamvinnu. Metnaður standi til að styðja þétt við baráttuna í nýju samstarfslandi, Sierra Leone. Áherslur Íslands sem ráðherra lýsti, áherslur á réttindi hinsegin fólks í utanríkisþjónustunni, eru til eftirbreytni, enda eru mannréttindi hornsteinn íslensku utanríkisstefnunnar.

Mannréttindabrot valda öðrum vandamála í þróunarríkjum: t.d. misskiptingu, fátækt og spillingu, og betrumbót er grundvallarforsenda þess að hægt sé að leysa úr áskorunum þróunarríkja til frambúðar. Það er því skylda okkar að halda því á lofti að mannréttindi eru algild, eiga alltaf við og um alla. Það er því mjög jákvætt að tíma og fjármunum sé varið í þróunarsamvinnuverkefni sem styðja við réttindi hinsegin fólks í þróunarríkjum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×