Erlent

For­­sætis­ráð­herra Portúgals segir af sér vegna spillingar­máls

Atli Ísleifsson skrifar
Antonio Costa hefur gegnt embætti forsætisráðherra Portúgals frá árinu 2015.
Antonio Costa hefur gegnt embætti forsætisráðherra Portúgals frá árinu 2015. AP

Antonio Costa, forsætisráðherra Portúgals, hefur sagt af sér vegna spillingarmáls sem upp er komið í landinu. Lögregla í Portúgal handtók í morgun starfsmannastjóra forsetans, Vitor Escaria, og fjóra til viðbótar vegna gruns um spillingu.

Portúgalski ríkisfjölmiðillinn SIC greinir frá þessu, en Costa greindi frá afsögninni í ávarpi til þjóðarinnar í dag. Hann sagðist sjálfur vera með hreina samvisku og að hann væri ekki grunaður um að tengjast málinu.

Escaria og hinir fjórir eru grunaðir um spillingu í tengslum við samninga um vinnslu liþíums í norðurhluta Portúgals, byggingu vetnisframleiðslustöðvar og gagnavers í hafnarbænum Sines.

Lögregla gerði húsleit á fjörutíu skrifstofum í opinberum byggingum í morgun, meðal annars á skrifstofu Escaria, innviðaráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu.

Innviðaráðherrann Joao Galamba er með réttarstöðu grunaðs manns í málinu og hið sama á við um forstjóra Umhverfisstofnunarinnar APA, Nuno Lacasta.

Costa fundaði í morgun með forsetanum Marcelo Rebelo de Sousa og greinir SIC að hann hafi þar boðist til að segja af sér embætti vegna málsins. 

Sósíalistinn Antonio Costa hefur gegnt embætti forsætisráðherra Portúgals frá árinu 2015. Áður hafði hann verið borgarstjóri í höfuðborginni Lissabon í átta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×