Þetta sagði Weiss á fundi dómsmálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í dag, samkvæmt frétt Washington Post. Er það í kjölfar þess að tveir rannsakendur skattsins sögðu fyrr á árinu að embættismenn hefðu reynt að hægja á rannsókninni. Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa tekið undir þessar ásakanir.
Weiss, sem skipaður var í embætti af Donald Trump, fyrrverandi forseta, hefur áður sagt þær rangar og ítrekaði það á áðurnefndum fundi í dag. Afar sjaldgæft er að sérstakir saksóknarar mæti á þingfundi áður en rannsóknum þeirra lýkur en hann er sagður hafa mætt vegna þess hve alvarlega þessum ásökunum hefur verið tekið.
„Ég er og hef alltaf verið sá sem tekur ákvarðanir í þessu máli,“ sagði Weiss samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs. Hann sagðist ekki taka ákvarðanir í tómarúmi enda væri hann bundinn af lögum og starfsreglum.
Hann sagði að á engum tímapunkti hefði einhver reynt að standa í vegi hans eða reyna að koma í veg fyrir að hann gripi til aðgerða, eins og að ákæra Hunter Biden.
Ákærður fyrir að ljúga á eyðublaði
Weiss hefur ákært Hunter Biden fyrir að ljúga á eyðublaði þegar hann keypti skotvopn árið 2018. Hann var þá í mikilli neyslu fíkniefna en laug á eyðublaðinu að svo væri ekki.
Saksóknarinn hafði einnig verið með Hunter til rannsóknar vegna skattsvika á árum áður, þegar hann var í neyslu, og náðist samkomulag milli saksóknara og lögmanna Hunters. Það náði þó ekki fram að ganga þegar í ljós kom að saksóknarar og lögmenn Hunters voru ekki sammála um hvað samkomulagið fæli í sér.
Repúblikanar, sem fara með meirihluta í fulltrúadeildinni, hafa einnig hafði rannsókn á því hvort Joe Biden hafi brotið af sér í starfi og tilefni sé til að ákæra hann fyrir embættisbrot. Lítið hefur farið fyrir þeirri rannsókn á undanförnum vikum, sem að hluta til má rekja til þeirrar óreiðu sem einkennt hefur fulltrúadeildina undanfarnar vikur, eftir að þingmaðurinn Matt Gaetz og nokkrir aðrir boluðu Kevin McCarthy úr embætti þingforseta.
Meðal annars ætla Repúblikanar að rannsaka hvort Joe Biden hafi hagnast af viðskiptum sonar hans, Hunter. Fyrsti nefndarfundurinn um þessa rannsókn þótti ekki fara vel fyrir Repúblikana þar sem þeirra eigin vitni grófu undan ásökunum þeirra.
Á nefndarfundinum í dag varaði Weiss þingmenn við því að mörgum spurningum gæti hann ekki svarað þar sem rannsókn hans væri enn yfirstandandi. Það féll þó ekki í kramið hjá þingmönnum Repúblikanaflokksins, sem gagnrýndu Weiss í hádegishléi og eftir fundinn fyrir að svara þeim.
Matt Gaetz sagði Weiss ekki hafa verið á fundinum í anda og gagnrýndi hann fyrir að svara ekki spurningum þingmanna nægilega vel.
Darrell Issa gagnrýndi Weiss fyrir að útskýra ekki áðurnefnt samkomulag við Hunter Biden og sagði saksóknarann hafa engin svör varðandi það af hverju hann hafi ætlað að bjóða syni forsetans samkomulag sem útilokaði ákærur fyrir aðra glæpi.
Demókratar sögðu fundinn hafa verið tímasóun og saka Repúblikana um að reyna að hafa áhrif á Weiss.
„Þetta er fordæmalaust. Þú truflar ekki rannsókn með nefndarfundum. Þetta er í fyrsta sinn sem það hefur gerst,“ sagði Glenn Ivey. Þá sagði hann það augljósa ástæðu þess að Weiss hefði ekki getað svarað öllum spurningunum. Hann vildi ekki skemma fyrir rannsókn sinni.
Jerrold Nadler, æðsti Demókratinn í nefndinni, sagði hafa komið skýrt fram að enginn hefði sett tálma í veg Weiss.
„Ég meina, Repúblikanar reyndu að fá hann til að segja eitthvað, en þeir töluðu bara um sömu hlutina aftur og aftur,“ sagði Nadler.