Elyounoussi og Fernandes skoruðu báðir í leiknum á Parken í gær sem FCK vann, 4-3. Með sigrinum komust dönsku meistararnir upp í 2. sæti A-riðils. Rauðu djöflarnir eru aftur á móti í því fjórða og neðsta.
Elyounoussi og Fernandes áttu í einhverjum orðaskiptum í leikslok. Norðmaðurinn var spurður út í það í viðtölum eftir leikinn.
„Ég held að allir sem hafi séð United og hann viti að hann er leikmaður sem er alltaf að kvarta og kveina í dómurunum,“ sagði Elyounoussi.
„Ég reyndi að koma honum frá dómaranum. Ég sagði, þessu er lokið. Það var ekkert meira í þessu. Ég er ekki hrifinn af leikmönnum sem reyna að hafa áhrif á dómarann.“
Dómgæslan var vissulega mikið til umræðu eftir leikinn. Tvær vítaspyrnur voru dæmdar í leiknum, Marcus Rashford rekinn af velli og fyrsta mark FCK þótti umdeilt.
Fernandes gat ekki leynt vonbrigðum sínum í viðtali við Runólf Trausta Þórhallsson, blaðamann Vísis og Stöðvar 2 Sports, eftir leikinn á Parken í gær.
„Vonbrigði, að sjálfsögðu, okkur fannst við leggja hart að okkur allan leikinn. Spiluðum á tíu mönnum eftir að Marcus [Rashford] var rekinn af velli þannig að þetta var erfitt fyrir okkur en við gerðum allt sem við gátum til að sækja sigurinn, svo reyndist það bara ómögulegt,“ sagði Fernandes meðal annars.
Næsti leikur United er gegn Luton Town á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn. United er í 8. sæti deildarinnar með átján stig eftir ellefu leiki.