Lífið

Orð­rómur um fram­hjá­hald skekur dönsku konungs­fjöl­skylduna

Jón Þór Stefánsson skrifar
Hjónaband Friðriks prins og Maríu prinsessu er undir smásjá danskra og spænskra fjölmiðla.
Hjónaband Friðriks prins og Maríu prinsessu er undir smásjá danskra og spænskra fjölmiðla. EPA

Meint framhjáhald Friðriks Danaprins með mexíkósku athafnakonunni Genovevu Casanova hefur verið milli tannanna á fólki og til umfjöllunar í fjölmiðlum í Danmerku og á Spáni.

Ástarævintýri Friðriks og Casanova á að hafa átt sér stað í heimsókn krónprinsins til Spánar, meðal annars til Madrídar. Spænsk slúðurblöð hafa haldið því fram að þau hafi varið nótt saman.

Því er haldið fram að Friðrik og Casanova hafi farið saman á listasafn þar sem verk Pablo Picasso voru til sýnis. Friðrik hafi ætlað að fara með öðrum vini sínum, sem hafi afboðað sig vegna veikinda. Genoveva hafi þá komið í staðinn.

„Ég hafna öllum staðhæfingum sem gefa til kynna að Friðrik Danaprins og ég eigi í rómantísku ástarsambandi,“ segir í yfirlýsingu Genovevu sem birtist í spænska blaðinu Hola!

„Slíkir orðrómar eru hreint út sagt falskir og brengla raunveruleikann á ósvífinn hátt. Mál þetta er nú þegar komið á borð lögmanna minn.“

Danskir miðlar hafa greint frá því að heimsókn Friðriks til Spánar hafi átt sér stað á sama tíma og eiginkona hans, María prinsessa, hafi verið á fundi Sameinuðu þjóðanna í New York-borg í lok október á þessu ári.

Ferð Maríu var formleg og tilkynnt opinberlega. Spánarför Friðriks var það hins vegar ekki.

Friðrik og María fögnuðu nítján ára brúðkaupsafmæli í maí síðastliðnum. Þau kynntust í heimalandi Maríu, Ástralíu, árið 2000, en sagan segir að hún hafi ekki verið meðvituð um að hann væri konungborinn þegar þau kynntust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×