Skoðun

Hvaða styttu á að fjar­lægja næst?

Helgi Áss Grétarsson skrifar

Séra nokkur kom m.a. að stofnun KFUM og KFUK, Knattspyrnufélagsins Vals og sumarbúðanna í Vatnaskógi. Sérann var yfir nírætt þegar hann lést árið 1961. Á meðan sérann var enn á lífi þótti ástæða til að reisa af honum styttu en hún var afhjúpuð árið 1955. Síðan þá hefur styttan verið í miðborg Reykjavíkur.

Nýlega hafa verið settar fram ásakanir á hendur séranum en í nýútkominni bók er haft eftir nafnlausum heimildarmanni að sérann hafi áreitt sig kynferðislega. Talskona tiltekinna hagsmunasamtaka sté svo fram og vísaði til þess í fjölmiðlaviðtölum að samtökin hefði vitnisburð undir höndum sem hefði að geyma sambærilegar frásagnir. Þessar frásagnir eru einnig nafnlausar. Engin rannsókn hefur farið fram á þessum ásökunum svo fullnægjandi sé.

Með öðrum orðum, fyrirliggjandi sönnunargögn um meintar misgjörðir sérans eru rýr. Hins vegar er ekki útilokað að ný gögn kunni að koma fram sem varpað geta skýrara ljósi á málið.

Viðbrögð borgarráðs

Hinn 9. nóvember sl. samþykkti borgarráð samhljóða svohljóðandi tillögu:

„Töluverð umræða hefur skapast um styttuna Séra Friðrik og drengurinn í kjölfar útkomu bókarinnar Séra Friðrik og drengirnir hans og tengdrar fjölmiðlaumræðu. Fyrir borgarráði liggur einnig tillaga Kolbrúnar Baldursdóttur borgarfulltrúa um að fjarlægja beri styttuna.

Lagt er til að borgarráð samþykkti að leita umsagnar KFUM og KFUK og Listasafns Reykjavíkur um hvort taka eigi minnismerki um sr. Friðrik Friðriksson, sem er á horni Amtmannsstígs og Lækjargötu, af stalli í ljósi ásakana sem fram hafa komið um að sr. Friðrik hafi beitt drengi kynferðislegu áreiti eða ofbeldi.“

Hvert er fordæmisgildið?

Með því að samþykkja þessa tillögu féllst borgarráð á að ásakanir, studdar takmörkuðum sönnunargögnum, dugi til að hefja ferli sem kann að leiða til þess að stytta sé fjarlægð eða færð til í borgarlandinu.

Spyrja þarf því, hvaða styttu á hugsanlega að fjarlægja næst? Var sem dæmi, Ingólfur Arnarson, landnemi, með hreinan skjöld? Hvað með Hannes Hafstein ráðherra og Jón Sigurðsson forseta?

Með öðrum orðum, hvar endar þráin til að vaka yfir (e. woke) sögulegu óréttlæti?

Í þessu samhengi er ástæða til að minna á að fyrir nokkrum árum var „woke-æðið“ út í heimi komið á slíkt stig að háværar kröfur voru uppi um að stytta af Winston Churchill, forsætisráðherra Breta á meðan seinni heimsstyrjöldinni stóð, yrði fjarlægð úr miðborg London.

Þróun af þessu tagi þykir mér varhugaverð. Ég er á móti henni og er sú afstaða mín í samræmi við grunngildi borgaralegrar stjórnmálastefnu.

Höfundur er varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×