Erlent

Sunak lætur innan­ríkis­ráð­herrann fjúka

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Braverman nýtur mikils stuðnings ákveðins hóps innan Íhaldsflokksins en meirihlutinn virðist hafa verið fylgjandi því að hún yrði látin fara.
Braverman nýtur mikils stuðnings ákveðins hóps innan Íhaldsflokksins en meirihlutinn virðist hafa verið fylgjandi því að hún yrði látin fara. AP

Breskir fjölmiðlar greindu frá því nú fyrir stundu að Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, hefði ákveðið að láta innanríkisráðherrann Suellu Braverman víkja.

PA hefur eftir heimildarmönnum innan Íhaldsflokksins að um sé að ræða uppstokkun af hálfu forsætisráðherrans til að styrkja stöðu ríkisstjórnarinnar til að taka langtíma ákvarðanir „fyrir bjartari framtíð“.

Kallað hefur verið eftir afsögn Braverman síðustu daga og vikur en hún vakti meðal annars reiði meðal flokkssystkina sinna í síðustu viku þegar hún hunsaði beiðnir frá skrifstofu forsætisráðherrans um að hún mildaði aðsenda grein sem birtist í Times.

Braverman vakti mikla reiði þegar hún kallaði áköll mótmælenda eftir vopnahléi á Gasa „hatursgöngu“. Þá gaf hún í um helgina og kallaði eftir frekari aðgerðum gegn mótmælum stuðningsmanna Palestínu.

Sagði ráðherrann á X/Twitter:

„Þetta má ekki halda áfram. Viku eftir viku eru götur Lundúna mengaðar hatri, ofbeldi og gyðingaandúð. Ráðist er á almenna borgara og þeim ógnað. Gyðingar sérstaklega upplifa ógn. Frekari aðgerða er þörf,“ sagði Braverman.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort Sunak hefði kjark til að láta Braverman fara en hún nýtur dyggs stuðnings ákveðins hóps meðal  íhaldssamari Íhaldsmanna. Fyrrverandi ráðherra sagði á dögunum að málið hefði leitt til þess að Sunak hefði misst traust á miðjunni.

Allt væri ástandið til þess fallið að skafa fylgi af flokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×