Viðskipti innlent

Telja fast­eignir og lausa­fé Vísis ehf. vel tryggt

Atli Ísleifsson skrifar
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. Vísir ehf í Grindavík er dótturfélag Síldarvinnslunnar.
Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar. Vísir ehf í Grindavík er dótturfélag Síldarvinnslunnar. Vísir/Arnar

Staðan á Reykjanesskaga hefur ekki áhrif á starfsemi útgerðarinnar Vísis en fiskvinnsla í Grindavík hefur stöðvast. Stjórnendur vinna við að bregðast við aðstæðum og munu taka ákvarðanir í samræmi við þróun mála. Stjórnendur telja fasteignir og lausafé félagsins í Grindavík vera vel tryggt.

Þetta kemur fram í tilkynningu Síldarvinnslunnar til Kauphallar, en Vísir ehf er dótturfélag Síldarvinnslunnar og með starfsemi sína í Grindavík.

Fram kemur að stjórnendur Vísis ehf hafi unnið að því að undirbúa og innleiða varnir og áætlanir til samræmis við þær sviðsmyndir sem almannavarnir og jarðvísindamenn hafi sett fram í tengslum við jarðhræringarnar á Reykjanesskaga.

„Vörðuðu þær flestar áhrif tjóns á innviðum utan Grindavíkur, s.s. á raforkuver og hitaveitu. Ljóst er að þróunin undanfarna sólarhringa hefur verið önnur og verri gagnvart byggð í Grindavík en þær sviðsmyndir gerðu ráð fyrir.

Staða mála hefur ekki áhrif á starfsemi útgerðar en fiskvinnsla í Grindavík hefur stöðvast. Stjórnendur vinna við að bregðast við aðstæðum og munu taka ákvarðanir í samræmi við þróun mála.

Stjórnendur hafa yfirfarið stöðu félagsins út frá vátryggingarvernd og telja fasteignir og lausafé félagsins í Grindavík vera vel tryggt í samræmi við lög vegna hugsanlegs tjóns af völdum jarðhræringanna. Starfsmenn og stjórnendur vinna að því að verja verðmæti sem bundin eru í hráefnis- og afurðabirgðum í samráði og samvinnu við yfirvöld.

Stjórnendur leggja áherslu á að hlúa að starfsfólki og halda sambandi við það,“ segir í tilkynningunni sem Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, skrifar undir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×