Enski boltinn

Alexander-Arnold lærir með því að horfa á mynd­bönd með John Stones

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trent Alexander-Arnold var gerður að varafyrirliða Liverpool í sumar.
Trent Alexander-Arnold var gerður að varafyrirliða Liverpool í sumar. EPA-EFE/PETER POWELL

Liverpool maðurinn Trent Alexander-Arnold leitar ekki langt yfir skammt þegar hann eltist við að læra betur nýju blendingsstöðuna sem hann hefur verið að spila.

Alexander-Arnold hefur spilað sem hægri bakvörður allan sinn feril en hann getur líka spilað inn á miðjunni.

Síðustu misseri hefur hann verið notaður meira í þessari frjálsri bakvarðarstöðu, eins konar blendingsstöðu, þar sem hann kemur meira inn á miðjuna þegar Liverpool er með boltann.

Með því er ætlunin að búa til yfirtölu á miðjunni, þar með vandræði fyrir mótherjanna og nýta sér betur sendingaógnina sem stafar af Alexander-Arnold.

Hinn 25 ára gamli landsliðsmaður hefur gaman af því að þróa þessa leikstöðu hjá sér.

„Ég nýt þess að læra leikinn betur. Horfa á leiki, horfa á einstaka leikmenn, skoða mismunandi leikkerfi, fylgjast með öðruvísi hlutum og hvernig aðrir leikmenn spila þessa stöðu. Það eru sumir sem spila hana virkilega vel,“ sagði Trent Alexander-Arnold við breska ríkisútvarpið.

Alexander-Arnold er hrifinn af því hvernig John Stones hefur spilað hjá Manchester City en Pep Guardiola hefur einmitt fært hann úr vörninni og inn á miðjuna.

„Ég tel það að ef að það sé einhver leikmaður sem hefur fundið upp þessa blendingsstöðu þá sé það auðvitað John Stones,“ sagði Alexander-Arnold.

„Ég hef dáðst af leik hans lengi. Hann er einstakur og ég horfi því mikið á hann. Ég horfi bæði á klippur með honum en eins bara þegar ég er að horfa á leiki með Manchester City. Þá sit ég og einbeiti mér af því sem hann er að gera,“ sagði Alexander-Arnold.

„Ég hef alltaf verið hrifinn af honum og ég dáist líka af því hvernig Rodri spilar. Hann er lykilmaður í þessi City liði og einhver sem er mjög vanmetinn. Við höfum líka séð það að þegar hann er ekki með liðinu þá er þetta ekki sama lið. Það sýnir mikilvægi hans,“ sagði Alexander-Arnold.

„Ég er því að horfa á þessa leikmenn en þeir eru ekki þeir einu. Ég horfi líka á leikmenn úr fortíðinni líka. Leikmenn eins og [Sergio] Busquets, [Xabi] Alonso, [Andrea] Pirlo og Stevie G [Gerrard]. Ég hef alltaf haft gaman af því að horfa á þá,“ sagði Alexander-Arnold.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×