Fótbolti

Luis Díaz skoraði tvö mörk fyrir framan pabba sinn grátandi í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Díaz horfir til föður síns Luis Manuel Díaz eftir seinna markið sitt en faðir hans var grátklökkur í stúkunni.
Luis Díaz horfir til föður síns Luis Manuel Díaz eftir seinna markið sitt en faðir hans var grátklökkur í stúkunni. Getty/Gabriel Aponte

Liverpool-maðurinn Luis Díaz var á skotskónum þegar Kólumbía vann 2-1 sigur á Brasilíu í undankeppni HM í nótt.

Díaz skoraði bæði mörk Kólumbíumanna í þessum mikilvæga sigri.

Í stúkunni var faðir hans - Luis Manuel Díaz - sem var rænt á dögunum og losnaði ekki úr haldi mannræningjanna fyrr en tólf dögum síðar.

Faðirinn hitti loksins fjölskyldu sína aftur á þriðjudaginn og voru þá miklir fagnaðarfundir.

Luis Díaz eldri átti líka erfitt með sig í stúkunni þegar strákurinn hans skoraði á móti Brasilíu. Hann sást gráta af gleði í stúkunni við hlið eiginkonu sinnar Cilenis Marulanda.

„Ég þakka guði. Hann gerir allt mögulegt. Við höfum alltaf þurft að komast í gegnum erfiða tíma en lífið gerir þig bæði sterkan og hugrakkan. Þannig er fótboltinn og þannig er lífið. Við áttum þennan sigur skilinn,“ sagði Luis Díaz eftir leikinn.

Bæði mörkin skoraði hann með skalla og það með aðeins fjögurra mínútna millibili. Fyrra markið kom á 75. mínútu og það seinna á 79. mínútu.

Þetta var fyrsti sigur Kólumbíumanna á Brasilíu í undankeppni HM í fimmtán leikjum.

Eftir sigurinn er kólumbíska landsliðið komið upp í þriðja sæti riðilsins með níu stig, þremur stigum á eftir toppliði Argentínu og stigi á eftir Úrúgvæ. Brasilíumenn eru bara í fimmta sæti á eftir Venesúela en sex efstu þjóðirnar fara beint á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×