Síðast var þessi tilraun reynd í apríl og þá sprakk Starship í loft upp.
Fyrst átti geimskotið að fara fram í gær (föstudag) en geimskotin var frestað um sólarhring vegna viðgerða. Þá var skotglugginn styttur úr tveimur tímum í tuttugu mínútur. Hann er því opinn frá 13:00 til 13:20 í dag.
Fylgjast má með herlegheitunum í spilaranum hér að neðan.
Watch Starship s second integrated flight test https://t.co/bJFjLCiTbK https://t.co/cahoRQ72lm
— SpaceX (@SpaceX) November 18, 2023
Starship á að vera grunnurinn að framtíð SpaceX. Með því að þróa fullkomlega endurnýtanlega eldflaug og geimfar gæti fyrirtækið dregið enn frekar úr kostnaði við geimskot og framkvæmt þau mun oftar en samkeppnisaðilar. Nota á Starship og Super Heavy til að flytja menn og birgðir til tunglsins og jafnvel lengra út í geim með mun minni tilkostnaði en aðrir geta gert.
Sjá einnig: NASA semur við SpaceX um að lenda geimförum aftur á tunglinu
Starship-kerfið samanstendur af gríðarstórri eldflaug og af um fimmtíu metra löngu geimfari sem ber nafnið Starship. Bæði stig kerfisins eru hönnuð til að geta verið notuð mjög hratt aftur, eins og SpaceX hefur gert með Falcon-eldflaugarnar.
Saman sett er stæðan 120 metrar á hæð. Super Heavy eldflaugin er búin 33 Raptor hreyflum sem brenna metan og fljótandi súrefni.
Lendir í sjónum við Havaí
Fari allt eftir ætlunum munu Super Heavy eldflaugin bera Starship í um tvær og hálfa mínútu, áður en aðskilnaður fer fram og eldflaugin snýr við og lendir í Mexíkóflóa. Eins og síðast stendur ekki til að reyna að lenda eldflauginni á jörðinni, heldur í sjónum undan ströndum Texas.
Geimfarið mun halda áfram eftir aðskilnaðinn og fara næstum því á braut um jörðu. Starship á að fljúga áfram þar til það lendir í sjónum við Havaí í Kyrrahafinu.
Síðast þegar þetta var reynt, í apríl, sprakk Starship í loft upp. Eldflaugin tók á loft en ekki tókst að aðskilja geimfarið frá eldflauginni svo öll stæðan snerist í hringi í háloftunum. Öryggisbúnaður geimfarsins sprengdi það í loft upp.
Sjá má tilraunaskotið í apríl í spilaranum hér að neðan.
Þrátt fyrir að stæðan hafi sprungið í loft upp segja starfsmenn SpaceX að tilraunaskotið hafi hjálpað mikið og í raun verið vel heppnað. Alltaf þóttu nokkuð miklar líkur á því að fyrsta tilraunaskotið endaði með sprengingu.
Síðan þá segja forsvarsmenn SpaceX að ýmsar endurbætur hafi verið gerðar á Starship. Í yfirlýsingu sem birt var í september segir að meðal þessara endurbóta séu breytingar á hugbúnaði og öryggiskerfi Starship, betri aðskilnaðarbúnaður og að endurbætur hafi verið gerðar á Raptor-hreyflum Super Heavy, svo eitthvað sé nefnt.