Skoðun

Stofnun við­bragð­steymis við vá

Bragi Björnsson og Guðmundur Björnsson skrifa

Samkvæmt almannavarnalögum er það Ríkislögreglustjóri sem fer með málefni almannavarna í umboði ráðherra og lögreglan ber ábyrgð á leitar- og björgunaraðgerðum á landi en óumdeilt er að Slysavarnafélagið Landsbjörg (SL) gegnir lykilhlutverki í öllum vegameiri leitar- og björgunarstörfum hérlendis. Fyrir liggur að landsmenn allir reið sig á þjálfaða sjálfboðaliða SL í neyð og án þeirra væri samfélagið ekki í stakk búið til að bregðast við neyðarástandi. Þá gegnir Rauði Kross Íslands (RKÍ) einnig veigamiklu hlutverki að hlúa að og tryggja öryggi þeirra sem verða fyrir áföllum.

Á grundvelli laga um almannavarnir hefur verið sett fram stefna ríkisins í almannavarna- og öryggismálum sem miðar að því að íslenskt samfélag sé öruggt. Í samræmi við stefnu stjórnvalda í almanna- og öryggismálum frá 2021 er nú unnið að heildarendurskoðun íslensku almannavarnalaganna. Markmiðið er að efla almannavarnakerfið landsins, styrkja það sem vel gengur og bæta það sem betur má fara.

Nýr veruleik kallar á nýjar lausnir

Sá nýi veruleiki sem blasir við Íslendingum vegna vaxandi náttúruhamfara, kallar á nýja sýn og ætti að hafa áhrif á það endurmat á almannavarnakerfi þjóðarinnar sem nú er unnið að.

Vísindamenn spá því að eldsumbrot og jarðskjálftar verði viðvarandi næstu áratugi í grennd við þéttbýlasta svæði landsins. Augljóst er að það mun valda áður óþekktu álagi á sjálfboðaliða björgunarsveitanna og Rauða Krossins ef ekki verður brugðist við. Að sama skapi er ljóst að það er óvarlegt og í raun ósanngjarnt að ætlast til þess að sjálfboðaliðar sinni öllum þeim störfum sem viðvarandi náttúruhamfaraástandi fylgir. Markmið og tilgangur bæði SL og RKÍ er að bregðast við óvæntu neyðarástandi og vinna að forvörnum en ekki sinna langtíma varðgæslu eða aðstoð. Með hliðsjón af þessu væri vert við endurskoðun á almannavarnakerfi landsins að íhuga stofnun sérstakrar sveitar launaðra sérfræðinga innan almannavarnakerfisins, sem hefði það meginhlutverk að sinna öryggismálum sem falla utan hefðbundinna starfa lögreglu og sjálfboðaliða björgunarsveitanna.

Tvíþætt hlutverk viðbragðsliðs við vá

Aukin tíðni náttúruhamfara á Íslandi krefst þess að tiltækt sé viðbragðsteymi við vá sem geti starfað við erfiðar aðstæður til lengri tíma. Þó að sjálfboðaliðar hafi unnið lofsvert starf í yfirstandandi náttúruhamförum, krefst margbreytileiki, umfang og alvarleiki nýlegra náttúruatburða annars konar viðbúnaðar en stuðst hefur verið við hingað til. Að sama skapi kallar aukin straumur ferðamanna til landsins á nýjar áskoranir í öryggismálum s.s. þörf á samfelldri viðveru viðbragðsaðila á varasömum stöðum sem erfitt er að manna með sjálfboðaliðum.

Sérhæft lið fagfólks í fullu starfi myndi leysa þennan vanda en ekki síður létta undir starfi björgunarsveitanna. Andlegt og líkamlegt álag á okkar frábæru sjálfboðaliða, sem nú sem fyrr bera hitann og þungann af viðbrögðum við þeirri vá sem vofir yfir okkur á Reykjanesskaga, er t.d. vaxandi áhyggjuefni. Teymi vel þjálfaðs atvinnufólks gæti létt þá byrði og stuðlað að betra jafnvægi milli vinnu, einkalífs og sjálfboðaliðastarfa björgunarsveitafólks. Þannig yrði dregið úr álagi á björgunarsveitirnar, sem er mikilvægt því áfram mun samfélagið treysta á öfluga sjálfboðaliða SL til að sinna leitar- og björgunarstörfum og öðrum viðamiklum aðgerðum í neyð.

Eðlilegt væri að hlutverk þessa liðs yrði vel skilgreint og gerðar væru ákveðnar menntunar kröfur til þeirra sem þar störfuðu. Sjá mætti fyrir sér að grunnurinn að menntunni væri byggð á námskeiðum björgunarskóla SL, námskeiðum Landvarða og hluta að námi lögregluskólans. Mætti í þessu sambandi líta til svokallaðra „löggæsluvarða“ hjá þjóðgarðastofnun bandaríkjanna (NPS Law Enforcement Ranger) varðandi starfsskyldur. Ætla má að margt björgunarsveitarfólk myndi sækja í þessi störf enda er þar að finna reynslumikið fólk með brennandi áhuga á neyðar- og björgunarstörfum.

Efnahagslegur ávinningur

Efnahagur Íslands, sem er mjög háður ferðaþjónustu, sem byggir verulega á góðu orðspori Íslands sem öruggur ferðamannastaður. Það skiptir því miklu máli að tryggt sé að ferðamenn upplifi sig áfram örugga á ferðum sínum um landið og að þeir skynji að þeim verði komið til bjargar ef með þarf. Þannig gæti þetta lið viðbragðsliða sinnt störfum sem sérstakir landverðir auk þess að vera til taks við náttúruhamfarir. Það myndi einnig geta skipt sköpum við að efla fræðslu, aðstoð og að leiðbeina ferðamönnum og þar með auka öryggi þeirra og heildarupplifun á Íslandi. Sérstaklega er þetta brýnt þar sem sífellt er orðið erfiðara að manna t.d. hálendisgæslu björgunarsveitanna. Þessi nálgun myndi ekki aðeins vernda og aðstoða gesti okkar heldur einnig viðhalda góðu orðspori Íslands sem öruggur og ábyrgur ferðamannastaður.

Fjármögnun

Áætla má að nægja myndi að u.þ.b. 200 einstaklingar skipuðu umrætt viðbragðslið sem dreifast myndi á vel skilgreinda staði í öllum landsfjórðungum. Slíkur fjöldi atvinnumanna gæfi möguleika á sérhæfingu þeirra í ýmsum verndar- og gæslustörfum sem er mikilvægt til að takast á við flókið hættuástand. Þá ætti slíkur fjöldi að duga til tryggja samfellda viðveru á áhættumiklum stöðum og sinna samstarfi við sjálfboðaliðahópa sem væru áfram til taks.

Sjá mætti fyrir sé að verkefnið væri fjármagnað aðallega með gjaldi sem ferðamenn greiddu vegna heimsóknar sinnar til landsins sem næmi 10 -15 evrum sem mætti kallast öryggisgjald. Miðað við núverandi ferðamannafjölda gæti þetta gjald numið um fjórum milljörðum árlega. Sú fjárhæð ætti að duga til rekstur slíks liðs auk þess að styðja etv. fjárhagslega við starfsemi SL, því eðlilegt væri að ákveðið hlutfall þessa gjalds færi til björgunarsveitanna enda hafa þær verulegan kostnað að leit-og björgun ferðamanna sem eðlilegt er að ferðamenn standi straum af að hluta.

Niðurstaða

Að koma á fót launuðu viðbragðsteymi við vá innan almannavarnakerfis Íslands er fyrirbyggjandi aðgerð og skref í átt að því að tryggja öryggi og vellíðan bæði íbúa landsins og ferðamanna. Um væri að ræða ígrundaða fjárfestingu í framtíð þjóðarinnar sem felst í því að vernda ekki bara líf og limi fólks heldur einnig efnahag og náttúrufegurð gegn þeim áskorunum sem okkar síbreytilega og óblíða náttúra skapar. Stofnun sérhæfðs viðbragðsliðs við vá er ekki bara nauðsyn heldur stefnumótandi ráðstöfun til að efla getu Íslands í hamfaraviðbrögðum til framtíðar, aðlagast alþjóðlegri þróun og takast á við þær áskoranir sem okkar fallega og einstaka land er sífellt að leggja fyrir okkur. Við teljum það sé nú kjörið tækifæri að gefa þessari hugmynd gaum þar sem unnið er að endurskoðun laga um almannavarnir.

Bragi Björnsson, lögmaður og félagi í SL.

Guðmundur Björnsson, ferðamálafræðingur og leiðsögumaður.

Höfundar eru áhugamenn um viðbrögð við vá og öryggismál.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×