Körfubolti

„Mér finnst svo aug­ljóst að hún nenni ekki að vera þarna“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karina Konstantinova lék með Keflavík í fyrra en er nú með Val. Hún tapaði stórt á móti gömlu félögunum í síðasta leik.
Karina Konstantinova lék með Keflavík í fyrra en er nú með Val. Hún tapaði stórt á móti gömlu félögunum í síðasta leik. Vísir/Vilhelm

Íslandsmeistarar Vals hafa ekki byrjað titilvörnina vel í Subway deild kvenna í körfubolta og þær fengu skell á móti Keflavík í síðasta leik.

Subway Körfuboltakvöld kvenna ræddi Valsliðið og þá sérstaklega búlgarska leikmanninn Karinu Konstantinovu. Þau eru á því að bakvörðurinn hafi engan áhuga á því að spila með Val.

„Valsarar vissu alveg hvað þær voru að fá. Ekki bara spilaði hún í deildinni í fyrra heldur spilaði hún fyrir bróður mannsins sem er að þjálfa liðið,“ sagði Hörður Unnsteinsson. Hörður Axel Vilhjálmsson þjálfaði Karinu Konstantinovu hjá Keflavík í fyrra og Hjalti Þór Vilhjálmsson er með Valsliðið í vetur.

Klippa: Körfuboltakvöld: Karina og Valsliðið

„Hann var líka að þjálfa með honum. Þeir voru saman í allri úrslitakeppninni og hann þekkti hana. Ég hélt að hann hefði tekið hana inn af því að hann þekkti hana það vel að hún myndi koma vel inn í hlutina. Mér fannst hún passa betur inn í Keflavíkurliðið í fyrra en þær spila aðeins viltari bolta,“ sagði Ólöf Helga Pálsdóttir, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Keflavík vill spila á heilum velli en Valur er meira í því að setja upp á hálfum velli og hafa meiri aga og flæði. Hún passar eiginlega ekkert inn í þetta lið og það er alltof stórt að fara úr Kiönu og yfir í hana,“ sagði Ólöf Helga. Kiana Johnson var frábær með Valsliðinu í fyrra.

„Mér finnst svo augljóst að hún nenni ekki að vera þarna. Ég veit um þjálfara sem reyndi að tala við hana fyrr í sumar, í apríl eða maí. Þá sagði hún aldrei Ísland, ekki til Íslands,“ sagði Hörður.

„Hún er of góð fyrir okkur,“ skaut Ólöf inn í.

„Líkamstjáningin er skelfileg,“ sagði Hörður og sýndi svipmyndir frá leik Keflavíkur og Vals sem Valskonur töpuðu með tuttugu stiga mun.

Það má sjá alla umfjöllunin um Karinu og Valsliðið hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×