Enski boltinn

Maguire barst af­sökunar­beiðni frá þing­manni Gana

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Maguire hefur loks borist afsökunarbeiðni eftir svívirðingar í hans garð af þingmanni Gana.
Maguire hefur loks borist afsökunarbeiðni eftir svívirðingar í hans garð af þingmanni Gana. Marco Steinbrenner/DeFodi Images via Getty Images

Isaac Adongo, þingmaður í Gana, hefur loks dregið til baka ummæli sem hann lét falla á síðasta ári um Harry Maguire, þar sem hann líkti varaforseta Gana við enska landsliðsmanninn þegar hann kom til Manchester United. 

Isaac Adongo gerði grín að efnahagsstefnu varaforsetans Mahamudu Bawumia í þingræðu sinni í nóvember 2022 og líkti henni við frammistöðu Maguire á knattspyrnuvellinum. Maguire hefur hlotið háværa gagnrýni eftir komu sína til Manchester United, málið náði ákveðnum hápunkti í haust þegar móðir hans og þjálfari enska landsliðsins stigu fram honum til varnar. 

Mahamudu Bawumia fer fyrir sérstakri nefnd sem ætlað er að leysa efnahagsvandann sem blasir við Gana. Verðbólga þar í landi mældist methá, 54% í desember 2022, og stendur nú í 35%. Skattahækkanir og aukin tollgjöld hafa verið sett á og skuldir ríkissjóðs Gana neyddu þá til að taka bráðabirgðalán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).

Maguire hefur risið í áliti marga eftir góðar frammistöður upp á síðkastið. Isaac Adongo hefur í ljósi þess dregið ummæli sín til baka, hann sagði Maguire hafa gerbreyst sem knattspyrnumann og baðst afsökunar á því að hafa líkt honum við varaforsetann Mahamudu Bawumia. 

Hann lét þó ekkert undan af gagnrýni sinni í garð Bawumia og sagði „hvað varðar okkar Maguire, þá er hann ennþá með bolla í hendinni að betla pening frá AGS“. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×