Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að landið starfræki átta slíkar stöðvar við 1.330 kílómetra löngu landamærin að Rússlandi. Finnsk stjórnvöld hafa sakað rússnesk yfirvöld um að beina flæði hælisleitenda til Finnlands til að hefna fyrir samstarf landsins með Bandaríkjamönnum.
Þá hafa eistnesk yfirvöld sakað Rússa um hið sama. Þau saka rússnesk stjórnvöld um að reyna með þessu að raska friði í landinu og auka á óróleika á landamærum landanna. Hyggjast Eistar einnig loka landamærastöðvum á landamærum sínum að Rússlandi.
Rússnesk stjórnvöld hafa ekki tjáð sig um ásakanirnar. Finnar hyggjast einungis hleypa fólki inn fyrir landamærin frá Rússlandi á nyrstu landamærastöðinni sem kennd er við Raja-Jooseppi. Finnar, sem gengu til liðs við NATO fyrr á þessu ári, hafa þegar lokað fjórum landamærastöðvum.
Fram kemur í frétt Guardian að í þessum mánuði hafi yfir 600 hælisleitendur mætt til Finnlands frá Rússlandi. Um sé að ræða gríðarlega aukningu en allajafna komi 0-10 slíkir hælisleitendur yfir landamærin í hverjum mánuði.
Eru flestir hælisleitendanna frá Miðausturlöndum og Afríku. Áður hafa litháensk og lettnesk stjórnvöld sakað stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi um að gera slíkt hið sama, sumsé að beina straumi hælisleitenda sem leitað hafa til landanna yfir til nágranna sinna. Stjórnvöld þar í landi neituðu þeim ásökunum.