Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar segja Bandaríkjamenn að banatilræðið hafi beinst gegn Gupatwant Singh Pannun, sem er lögmaður fyrir samtök sem kallast „Síkar fyrir réttlæti“. Ekki hefur verið gert opinbert hvernig upp komst um hið meinta tilræði né hvernig það var stöðvað. Málið ku vera til rannsóknar hjá Alríkislögreglu Bandaríkjanna (FBI)
Tveir mánuðir eru síðan tveir grímuklæddir menn myrtu Hardeep Singh Nijjar í Bresku Kólumbíu í Kanada, en hann kom einnig að starfsemi áðurnefndra samtaka. Samtök þessi taka þátt í baráttu síka fyrir sjálfstæðu ríki í Punjab-héraði í Indlandi.
Það morð hefur leitt til versnandi sambands Kanada og Indlands.
Sjá einnig: Fækka erindrekum á Indlandi vegna deilna um dráp á leiðtoga síka
Wall Street Journal hefur eftir talskonu þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna að málið sé litið alvarlegum augum og hafi verið tekið fyrir á hæstu stigum milli ríkisstjórna Bandaríkjanna og Indlands
Indverskir ráðamenn eru sagðir hissa og áhyggjusamir vegna ummæla Bandaríkjamanna og hafa þeir sagt að „aðgerðir af þessu tagi“ séu ekki gerðar á þeirra vegum.
Hávær áköll eftir sjálfstæði
Pannun sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði að síkar myndu ekki hætta að berjast fyrir sjálfstæði.
Eins og áður segir hafa síkar barist fyrir sjálfstæðu ríki í Punjab og nærliggjandi svæðum í norðurhluta Indlands en á árum áður kom iðulega til átaka á svæðinu milli síka og yfirvalda. Þessi barátta var að mestu kæfð undir lok síðustu aldar en síkar hafa reglulega deilt við Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands til langs tíma, og hafa áköll eftir sjálfstæði orðið nokkuð hávær að nýju.