Slökkviliði barst tilkynning um eldinn um klukkan 5:50 í morgun.
„Þetta leit illa út, það var tilkynnt um að fólk væri hugsanlega fast jafnvel inni og að einhverjir væru að stökkva út um glugga“, segir Stefán Kristinsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í samtali við fréttastofu.
Þegar slökkvilið mætti á staðinn hafði mikill fjöldi fólks komist út úr húsnæðinu en einum var bjargað út. Þrír voru fluttir á slysadeild en að sögn Stefáns er sá sem bjargað var út þungt haldinn.

Allt tiltækt lið slökkviliðs var kallað út og eru enn á staðnum, en verið er að draga úr viðbragði. Búið er að slökkva eldinn og unnið að reykræstingu.
Aðspurður um hvort íbúðarhúsnæði sé að ræða segir Stefán að húsnæðið sé ekki byggt sem slíkt en búið hafi verið að útbúa litlar íbúðir innan þess.

Uppfært klukkan 8:15.
Upphaflega bárust upplýsingar um að fjórir hefðu verið fluttir á slysadeild en þeir voru þrír. Rannsóknarlögregla var að mæta á vettvang og er rannsókn hafin á upptökum eldsins. Slökkvilið hefur dregið úr viðbragði en einn bíll frá þeim er nú á staðnum.