Enski boltinn

United fyrsta liðið til að halda fimm hundruð sinnum hreinu

Siggeir Ævarsson skrifar
De Gea hélt marki sínu hreinu 190 sinnum í þeim 545 leikjum sem hann lék fyrir Manchester United.
De Gea hélt marki sínu hreinu 190 sinnum í þeim 545 leikjum sem hann lék fyrir Manchester United. EPA-EFE/PETER POWELL

Manchester United skráði sig í sögubækurnar í gær þegar liðið vann 0-3 sigur á Everton en þetta var í 500. sinn sem liðið heldur hreinu í ensku úrvalsdeildinni.

Var þetta í fimmta sinn sem Manchester United heldur hreinu í deildinni í þeim 13 leikjum sem Andre Onana ver mark liðsins en hann hefur þrátt fyrir það fengið á sig vænan skammt af gagnrýni í upphafi tímabils.

Bróðurparturinn af þessari tölfræði tilheyrir tveimur fyrrum markvörðum United en David de Gea hélt hreinu í 147 leikjum af þeim 415 deildarleikjum þar sem hann stóð á milli stanganna hjá liðinu. 

Næstur á lista er svo Daninn geðþekki Peter Schmeichel sem hélt marki sínu hreinu í 112 deildarleikjum af þeim 292 sem hann lék í deildinni, sem þýðir að hann hélt hreinu í rúmlega 38 prósent af öllum deildarleikjum með United. Ekki amaleg tölfræði það.

Þeir félagar eiga því samanlagt rúmlega helminginn af þessum 500 leikjum en fjölmargir markmenn hafa reynt að máta sig við markmannsstöðuna hjá United í gegnum árin, með misgóðum árangri.

Eftirminnilegastur, ekki vegna þess hversu góður hann var, er mögulega Ítalinn Massimo Taibi, sem gárungarnir uppnefndu „blinda Feneyinginn“ eftir frammistöðu hans gegn Southampton hér um árið. Þetta reyndist næst síðasti leikur hans fyrir félagið og hann lék aðeins fjóra alls.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×