Enski boltinn

Fannst mark Garnachos flottara en mark Rooneys

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
hjolhestar

Gary Neville segir að markið sem Alejandro Garnacho skoraði fyrir Manchester United gegn Everton í gær sé flottasta mark sem hann hefur séð skorað með hjólhestaspyrnu.

Eftir aðeins þrjár mínútur í leik Everton og United á Goodison Park í gær skoraði Garnacho með stórkostlegri hjólhestaspyrnu og kom gestunum yfir. United vann leikinn á endanum, 0-3.

Neville, sem lýsti leiknum á Sky Sports, var dolfallinn yfir marki Garnachos eins og fleiri.

„Ég hef ekki séð betra mark með hjólhestaspyrnu. Þetta var fallegasta hjólhestaspyrna sem ég hef séð,“ sagði Neville.

Margir líktu marki argentínska ungstirnisins við frægt mark Waynes Rooney fyrir United gegn Manchester City 2011. Neville fannst markið hans Garnachos vera flottara.

„Ég hef ekki séð svona áður. Það sem vakti athygli var að hann þurfti að færa sig, fer inn og út, hreyfir fæturna snöggt og kastar sér upp í loftið,“ sagði Neville.

„Ég spilaði fótbolta lengi en get ekki gert þetta. Ekki bara hjólhestaspyrnuna heldur að komast í loftið til að ná að snerta boltann. Ég held ég myndi hálsbrjóta mig! Flestir leikmenn myndu ekki vita hvernig ætti að gera þetta. Þetta eru fimleikar, ekki fótbolti. Þetta er besta hjólhestaspyrna sem ég hef séð. Ég hef aldrei séð leikmann komast í stöðu eins og Garnacho. Rooney var nálægt því en mark Garnachos er bara betra.“

Markið í gær var það fyrsta hjá Garnacho í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. United er í 6. sæti hennar. Liðið hefur unnið fimm af síðustu sex deildarleikjum sínum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×